Halló og heilasletturnar (1978)

Halló og heilasletturnar

Halló og heilasletturnar var skammlíf pönkhljómsveit en þó merkileg í sögulegu samhengi því hún var ein allra fyrsta starfandi pönksveitin hér á landi, líklega önnur í röðinni á eftir Þvagi sem hafði starfað fáeinum mánuðum fyrr.

Halló og heilasletturnar mun hafa komið fram opinberlega tvívegis en fyrra skiptið var í byrjun ágúst 1978 þegar sveitin tróð upp á myndlistarsýningu Friðriks Þórs Friðrikssonar (síðar kvikmyndagerðarmanns) og Steingríms Eyfjörð Guðmundssonar á Kjarvalsstöðum ásamt nektardansmærinni Elinóru sem baðaði sig upp úr blóði.

Steingrímur Eyfjörð var reyndar sjálfur meðal meðlima sveitarinnar og lék á gítar en aðrir meðlimir hennar voru Þorgeir Rúnar Kjartansson söngvari og saxófónleikari, Sigurður Hannesson trommuleikari, Sigurður Þórisson gítarleikari, Örn Birgir Sveinsson söngvari og Guðbergur Davíðsson bassaleikari en sveitin mun hafa sprottið upp úr vinahópi úr Menntaskólanum við Tjörnina og var Þorgeir Rúnar lagahöfundur sveitarinnar. Halldór Ásgeirsson var líklega einnig viðloðandi sveitina.

Umfjöllun Dagblaðsins um tónleikana voru undir yfirskriftinni „Ræfildómur á Kjarvalsstöðum“ og var sveitinni lýst þar sem „íslenzkt ræflagengi“ sem var ágætlega í takt við að á þessum tíma var gjarnan talað um punktónlist sem ræflarokk, í greininni er sveitin reyndar kölluð Hinir sívinsælu halló og heilasletturnar. Þess má geta að hluti tónleikanna að minnsta kosti var hljóðritaður og kom eitt laganna (Amma spinnur galið) út löngu síðar á safnkassettunni [Hrátt] Pönksafn (2016), myndbrot frá tónleikunum má einnig sjá á Youtube.

Halló og heilasletturnar mun hafa komið fram aftur á tónleikum litlu síðar en ekki liggja fyrir upplýsingar um hvenær eða hvar það var, sveitin var skammlíf.