Haraldur Ólafsson [1] (1901-84)

Haraldur Ólafsson

Haraldur V. Ólafsson, gjarnan kallaður Haraldur í Fálkanum er líklega með þeim brautryðjendum sem hafa haft hvað mestu áhrifin á íslenska tónlist á 20. öldinni, bæði sem innflytjandi hljómplatna og sem útgefandi íslensks efnis.

Haraldur Valdimar Ólafsson fæddist árið 1901 í Reykjavík og bjó þar alla ævi, hann starfaði aldrei sem tónlistarmaður en nam píanóleik hjá Önnu Pjeturs barn að aldri og varð síðan einn af stofnendum Lúðrasveitar Reykjavíkur þegar lúðrasveitirnar Gígjan og Harpan sameinuðust árið 1922, þar var hann klarinettuleikari en hætti í sveitinni þegar hann hóf að starfa í fjölskyldufyrirtækinu Fálkanum sem faðir hans keypti árið 1924.

Haraldur lauk verslunarprófi og fór síðan í framhaldsnám til Þýskalands, hann var mikill tónlistaráhugamaður og sá fyrir sér að heilmikill markaður væri fyrir hljómplötur á Íslandi en Hljóðfærahús Reykjavíkur var þá eitt um hituna í þeim efni. Hann fékk samþykki föður síns til að festa kaup á nokkur hundruð hljómplötum hjá þýska hljómplötufyrirtækinu Carl Lindström (sem síðar rann inn í His master‘s voice) og í framhaldinu var hljómplötudeild stofnuð innan Fálkans sem átti eftir að starfa í áratugi. Næst hóf Haraldur innflutning á plötum frá Bretlandi og þá fékk hann umboð fyrir Columbia útgáfufyrirtækið sem var um þetta leyti fyrst slíkra til að nota rafmagnstengda hljóðnema í stað trekta áður, þá gerði hann samning við fyrirtækið um að annast hljóðritun á íslensku tónlistarfólki í tengslum við Alþingishátíðina á Þingvöllum sumarið 1930. Í kjölfarið komu út 60-70 plötur, þær fyrstu sem hljóðritaðar voru hérlendis og voru Haraldur og Fálkinn í algjöru brautryðjendastarfi hérlendis.

Plötusalan hafði farið rólega af stað fyrstu árin sem Fálkinn flutti inn plötur en þarna varð mikil sprenging í plötusölunni enda hafði ekki verið kostur á miklu úrvali platna með íslenskum flytjendum fram að því, dæmi voru um að í þessari fyrstu törn hefðu plötur selst í allt að 2000 eintökum, t.d. með Karlakór KFUM og Hreini Pálssyni. Tveimur árum síðar fékk Haraldur aftur hljóðupptökumenn til landsins á vegum Columbia og enn fleiri plötur komu út.

Haraldur V. Ólafsson í Fálkanum

Undir stjórn Haraldar efldist hljómplötu- og útgáfudeild Fálkans gríðarlega en tók eðlilega nokkra niðursveiflu í kringum kreppuárin og svo heimsstyrjöldina sem fylgdi í kjölfarið, eftir stríð jókst hróður fyrirtækisins enn á ný og ný tegund tónlistar bættist við á sjötta áratugnum þegar Haukur Morthens og fleiri hófu að gefa út plötur sínar undir merkjum Fálkans en fram að því hafði mestmegnis verið um einsöng og kórsöng að ræða. Jafnframt kom Haraldur með ýmsar aðrar nýjungar s.s. talað mál á plötum og víst er að upptökur með upplestri þjóðskálda á eigin verkum eins og Halldóri Laxness, Davíð Stefánssyni frá Fagraskógi, Tómasi Guðmundssyni og fleirum hefðu varla komið út nema fyrir tilstilli hans, einnig leikritin Gullna hliðið og Íslandsklukkan. Popptónlistin seldist þó alltaf best og hélt útgáfunni gangandi á meðan klassíkin varð með tímanum eins konar jaðarútgáfa rekin af hugsjón Haraldar. Þá er ógetið þess hugsjónastarfs sem fólgið var í því að markaðssetja íslenska tónlist fyrir erlendan markað en þar var Haraldur fyrstur allra á Íslandi, það þarf varla að taka fram að Fálkinn var um langt árabil stærsti innflytjandi og útgefandi á hljómplötum hérlendis undir stjórn Haraldar.

Haraldur hafði tekið við starfi framkvæmdastjóra Fálkans af föður sínum seint á fimmta áratugnum og varð síðan forstjóri fyrirtækisins og gegndi því embætti allt fram á miðjan áttunda áratuginn þegar hann hætti fyrir aldurs sakir, þá varð hann reyndar ræðismaður Íslands í Suður-Kóreu um nokkurra ára skeið.

Haraldur var jafnframt framarlega í félagsmálum tónlistarútgefanda og öðrum tónlistartengdum málefnum hér á landi, hann var um árabil í stjórn Félags hljómplötuframleiðenda, formaður Íslandsdeildar alþjóðasambands hljómplötuframleiðenda og formaður Sambands flytjenda og hljómplötuframleiðenda sem hann var reyndar aðal hvatamaður að stofnun – síðan var stofnaður tónmenntasjóður í nafni Haraldar innan þess sambands. Hann var jafnframt heiðraður fyrir störf sín að útgáfumálum og útbreiðslu íslenskrar menningar m.a. með fálkaorðunni og heiðursmerki EMI en hann var einnig gerður að heiðurfélaga m.a. hjá Íslendingafélaginu í Winnipeg í Kanada, Karlakórnum Vísi á Siglufirði og Lúðrasveitinni Svani svo dæmi séu nefnd.

Haraldur lést haustið 1984.