Haraldur Þorsteinsson (1952-)

Haraldur Þorsteinsson

Það eru áreiðanlega engar ýkjur að nafn Haraldar Þorsteinssonar bassaleikara kemur einna oftast upp þegar skimað er eftir nöfnum hljóðfæraleikara á plötum en bassaleik hans er líklega að finna á þriðja hundrað platna sem komið hafa út hérlendis, auk þess er leitun að hljóðfæraleikara sem starfað hefur með svo mörgum þekktum hljómsveitum. Það er jafnframt eftirtektarvert að Haraldur hefur leikið með mörgum kynslóðum tónlistarmanna og það eitt og sér hlýtur að segja til um gæði bassaleikarans sem að öðru leyti fer lítið fyrir.

Haraldur Þorsteinsson er fæddur sumarið 1952 og var því að byrja að spila á bassa þegar blús- og progtónlistin var í hávegum höfð. Hann mun reyndar hafa byrjað að spila á gítar en færði sig fljótlega yfir á bassann sem síðan varð hans aðal hljóðfæri, fyrsta hljómsveit hans mun hafa verið skólahljómsveit í Austurbæjarskóla sem síðan varð að Sókrates. Sveitin var í grunninn blússveit og Haraldur átti æ síðan eftir að vera viðloðandi blústónlist samhliða annarri tónlist.

Og strax komu hljómsveitir Haraldar á færibandi, Litli matjurtagarðurinn varð næst á dagskrá og síðan Pops en samhliða því var hann einnig að leika blús á blúskvöldum en um það leyti, um og upp úr 1970 var heilmikil blúsvakning í gangi hérlendis og í beinu framhaldi af því hófust tilraunir með fönk og bræðing sem leiddi af sér hljómsveitina Eik sem Haraldur var lengi vel starfandi með. Sú sveit sendi frá sér tvær breiðskífur og eina smáskífu en var aldrei beinlínis vinsældapopp enda var eins konar hliðarsveit stofnuð til að lífga upp á stuðið á dansleikjum sveitarinnar – það var hljómsveitin Deildarbungubræður og var Haraldur lítillega viðloðandi þá sveit.

Haraldur lék um skamma hríð með hljómsveitinni Pearl um miðjan áttunda áratuginn samhliða Eikinni en svo um það leyti hófst tímabil sem hann starfaði sem atvinnutónlistarmaður, þ.e. hafði tónlistina sem aðal starf. Á þeim tíma og næstu árum lék hann töluvert inn á plötur annarra listamanna s.s. Axels Einarssonar, áðurnefndra Deildarbungubræðra, Alfa beta, Kötlu Maríu, Goðakvartettsins, HLH flokksins, Spilverk þjóðanna og Þokkabótar en hann starfaði með þeirri sveit um tíma, einnig lék hann inn á plötur tengdar leikritum og söngleikjum eins og Emil í Kattholti, Pílu Pínu og Öskubusku, enn síðar átti hann eftir að spila í fjölmörgum slíkum leiksýningum auk þess að leika inn á plötur tengdar þeim – hér má nefna Litlu hryllingsbúðina, Gauragang o.fl.

Haraldur með Brimkló

Árið 1977 gerði Haraldur stuttan stans í hljómsveitinni Póker en síðan var komið að því að ganga til liðs við hljómsveitina Brimkló sem þá var verið að endurreisa eftir stutt hlé, um svipað leyti var Eikin að leggja upp laupana svo tímasetningin hentaði prýðilega og með Brimkló (sem gaf út nokkrar plötur og var ein allra vinsælasta sveit landsins) starfaði Haraldur til 1982  en gekk þá til liðs við hljómsveit Björgvins Halldórssonar sem var stofnuð í kjölfarið, hann starfaði einnig um tíma með Pardus og hljómsveit Magnúsar Kjartanssonar um tíma og lék inn á plötu með þeirri sveit, og fram eftir níunda áratugnum bættust fjölmargar plötur í sarpinn þar sem bassaleikur Haraldar kom við sögu, þar má nefna plötur með PS&Co og Rokkbræðrum en á síðarnefndu plötunni starfaði hann með hljómsveitinni Babadú. Hann lék með mörgum öðrum sveitum um það leyti s.s. Pondus og Grafík (einnig á plötu með þeim) og þá starfaði hann heilmikið með Megasi á þessum árum, og var viðloðandi hans tónlist bæði á fjölmörgum tónleikum og plötum.

Haraldur Sálarliði

Haraldur hafði með framangreindum hljómsveitum starfað með sinni kynslóð mestmegnis en nú höfðu nýjar slíkar tekið við merkinu í popplandslaginu hér á landi og hann var kominn í flokk þeirra reynslumeiri í bransanum og eftirsóttur sem slíkur. Þegar Bítlavinafélagið var stofnað 1986 var hann fenginn í það verkefni og átti hann eftir að starfa með þeirri vinsælu hljómsveit um nokkurra ára skeið og leika inn á plötur með henni, þar urðu einnig þau tímamót á ferli bassaleikarans að hann söng tvö lög inn á plötur, annars vegar í laginu Hanna Hanna á plötunni Bítlavinafélagið býr til stemmingu (1987), hins vegar Skuldir á plötunni Tólf íslensk bítlalög (1988) með sömu sveit.

Á síðari hluta níunda áratugarins færðist í vöxt að tónlist eldri kynslóðanna rataði á svokallaðar tónlistarsýningar á Broadway, Hótel Íslandi, Hótel Sögu og víðar og var Haraldur þar stundum bassaleikari, hann lék einnig á tónlistarsýningu tengdri Jesus Christ Superstar sem Jón Ólafsson félagi hans í Bítlavinafélaginu hélt utan um en í kjölfar þess verkefnis var hljómsveitin Sálin hans Jóns míns stofnuð og var Haraldur stofnmeðlimur þeirrar sveitar og lék með henni um tíma og á fyrstu plötu hennar. Haraldur kom svo einnig að fleiri verkefnum með Jóni og félögum í Bítlavinafélaginu, t.d. lék hann á plötu Possibillies og síðar á plötum Eyjólfs Kristjánssonar og Rafns Jónssonar Bítlavina og á plötu Ragnars Sólberg sonar Rafns. Og auðvitað bættist í hóp annarra platna einnig, Bjartmar Guðlaugsson, Laddi, Hilmar Oddsson, Ingi Gunnar Jóhannsson, Sverrir Stormsker, Edda Heiðrún Backman, Egill Ólafsson og jafnvel Stuðmenn nutu starfskrafta Haraldar en einnig lék hann á fjölmörgum safnplötum svo sem í tengslum við Eurovision keppnina, Ljósanótt og svo jólaplötum ýmiskonar.

Haraldur Þorsteinsson

Haraldur hafði haldið tryggð við blúsinn, t.d. starfað með blússveitinni Blámakvartettnum um árabil en á tíunda áratugnum hóf hann jafnframt að koma fram með Vinum Dóra, Tregasveitinni og Blúsmönnum Andreu en bassaleik hans má heyra á plötum þeirra sveita, á þeim tíma starfaði hann einnig með Galíleó, pöbbabandinu Gott, Þórgísl, Fánum, Rokkbandi Björgvins Gíslasonar, Lömunum ógurlegu, Upplyftingu, Sangriu og Draumasveitinni svo enginn hörgull virtist vera á tónlistarfólki sem vildi starfa með honum. Hann var einnig áfram viðloðandi tónlistarsýningar og starfaði þar með áðurnefndum Jóni Ólafs (m.a. í Dægulagacombói Jóns Ólafssonar) en einnig mikið með Björgvini Halldórssyni, sem og þegar Brimkló kom saman en Haraldur lék líka á fjölmörgum plötum Björgvins, þess má geta að bæði Bítlavinafélagið og Eik hafa einnig margoft komið saman og spilað.

Á síðasta áratug aldarinnar lék Haraldur inn á enn fleiri plötur, Emilíana Torrini, Ásgeir Óskarsson, Dúettinn Tromp, Valgeir Sveinsson, Geirmundur Valtýsson, KK og Magnús Jóhann G. Jóhannsson, Jóhanna Guðrún og Guðmundur Valur voru meðal þeirra og á nýrri öld bættust við Rúnar Þórisson, Ingólfur Steinsson, Jón Ólafsson, Guðlaugur Kristinn Óttarsson, Dísa, Hjörtur Howser, Grúsk og Hnotubrjótarnir og þannig mætti áfram telja. Hann hefur á síðustu áratugum hvergi slegið af í spilamennsku þrátt fyrir að vera kominn á löglegan ellilífeyrisaldur og hefur verið að starfa með hljómsveitum eins og Meinlæti, Hljómsveit Guðmundar Péturssonar, Jójó og götustrákunum, hljómsveitinni Sigurlaugu, Skuggasveinum, Sérfræðingunum að sunnan og fleiri sveitum. Og ekkert bendir til annars en að hann muni áfram leika á bassa bæði á opinberlegum vettvangi og inn á plötur á næstu árum.

Framangreint er lítið annað en upptalning á hljómsveitum og plötum enda skipta hljómsveitir Haraldar í gegnum tíðina mörgum tugum, og plöturnar eru miklu fleiri. Slíkt eitt og sér hlýtur að teljast gæðamerki fremur en verðlaun og viðurkenningar enda er ekki algengt að bassaleikur sé verðlaunaður með eins áberandi hætti og t.d. söngur eða tónsmíðar, Haraldur á þó að baki titilinn bassaleikari ársins sem hann hlaut á Íslensku tónlistarverðlaununum árið 2000.