Afmælisbörn 11. október 2023

Guðmundur Jónsson

Afmælisbörnin á þessum degi eru sex talsins:

Jón Ásgeirsson tónskáld er níutíu og fimm ára í dag. Jón fæddist á Ísafirði en nam fræði sín í Reykjavík og síðar í Skotlandi, hann hefur komið að tónlistinni með margs konar hætti, til að mynda hefur hann stjórnað kórum og lúðrasveitum eins og Fóstbræðrum og Lúðrasveit verkalýðsins, ritað tónlistargagnrýni í Morgunblaðið en fyrst og fremst er hann tónskáld og þekkja flestir verk hans, til dæmis óperuna Þrymskviðu og sönglög á borð við Maístjörnuna og Góða mamma.

Guðmundur Jónsson gítarleikari, lagahöfundur og söngvari er sextíu og eins árs gamall í dag. Hann kemur upphaflega frá Skagaströnd og hefur leikið með ótal hljómsveitum s.s. Tíbet tabú, Nykri, Kikk, Janus, GG blús, Vestanáttinni, Pelican, N1+ (Enn einum plús) og svo að sjálfsögðu Sálinni hans Jóns míns, þar sem hann hefur samið hvern stórsmellinn á fætur öðrum. Guðmundur á einnig að baki nokkrar sólóplötur.

Björgvin Ploder trommuleikari og söngvari er fimmtíu og sjö ára gamall. Björgvin er þekktastur fyrir að vera trommuleikari Sniglabandsins en hann hefur einnig leikið og sungið í sveitum eins og Vinum Dóra, B.P. og þegiðu Ingibjörg, Bjargvættinum Laufeyju, Disneydásemd, Grúski, Spuna BB og Bykkju. Fæstir vita aftur á móti að Björgvin er einn Strumpanna og hefur sungið á plötunum þeirra.

Björn Jörundur Friðbjörnsson söngvari, bassaleikari, leikari og laga- og textahöfundur er fimmtíu og þriggja ára gamall í dag. Björn þarf varla að kynna sérstaklega, hann hefur auðvitað gert garðinn frægan með hljómsveitinni Nýdanskri en einnig sungið stórsmelli eins og Álfheiði Björk. Björn hefur einnig verið í hljómsveitum eins og Auknum þrýstingi, Íslenska fánanum, Popplandi, Spooky boogie, SSSól og Luxus, auk þess að gefa út sólóefni.

Leifur Hauksson (1951-2022) hefði einnig átt afmæli á þessu degi. Leif þekkja allir úr útvarpinu en hann var líka leikari og tónlistarmaður, lék og söng t.a.m. stórt hlutverk í Litlu hryllingsbúðinni á sínum tíma og var meðlimur hljómsveitarinnar Þokkabót. Þá var Leifur einn af Hrekkjusvínunum sem nutu mikilla vinsælda um miðbik áttunda áratugarins og var einnig í hljómsveitinni Þyrlum frá Hólmavík en hann var með annan fótinn vestur á Ströndum um árabil.

Sigurður Demetz Franzson (Vincenzo Maria Demetz) óperusöngvari hefði einnig átt afmæli á þessum degi en hann fæddist 1912. Sigurður var upphaflega frá Austurríki en kom hingað árið 1955 og lét strax að sér kveða á tónlistarsviðinu, hann stjórnaði kórum eins og Karlakór Keflavíkur og söngfélaginu Gígjunni en kenndi einnig söng, og stofnaði reyndar söngskóla sem kenndur er við hann og starfar reyndar ennþá en Sigurður lést árið 2006.

Vissir þú að Ólafur Gunnarsson og Hans Jensson úr Lúdó sextett eru feður Jóns Ólafssonar og Jens Hanssonar úr Sálinni hans Jóns míns?