Harmoníkufélag Hveragerðis [félagsskapur] (1983-95)

Merki Harmoníkuunnenda Hveragerðis

Harmonikkufélag var starfrækt í Hveragerði í liðlega áratug undir nafninu Harmoníkufélag Hveragerðis, nafni þess var reyndar eftir nokkurra ára starfsemi breytt í Harmoníkuunnendur Hveragerðis en hér verður umfjöllunin undir fyrra nafninu.

Það mun hafa verið Kristján Ólafsson sem var aðal hvatamaður að stofnun Harmoníkufélags Hveragerðis haustið 1983 en hann var jafnframt fyrsti formaður félagsins. Félagið var alltaf með fámennustu aðildarfélögum Sambands íslenskra harmonikuunnenda (S.Í.H.U.) en lengi framan af voru meðlimir í kringum tólf talsins – allt harmonikkuleikarar, þegar ákveðið var að hleypa öðru fólki en harmonikkuleikurum inn í félagið fjölgaði eitthvað í því en þeir voru líkast til aldrei fleiri en tuttugu. Starfsemi félagsins var með nokkuð hefðbundnum hætti, dansleikir og spilakvöld voru t.a.m. haldin reglulega. Anna Halldórsdóttir tók fljótlega við formennsku af Kristjáni en Gísli Brynjólfsson leiddi félagið frá árinu 1987 og þar til það var formlega lagt niður árið 1995.