Harmonikuunnendur Vesturlands [félagsskapur] (1979-)

Merki Harmonikuunnenda Vesturlands

Félagsskapurinn Harmonikuunnendur Vesturlands hefur verið starfræktur síðan 1979 en félagið er eitt elsta sinnar tegundar hérlendis.

Harmonikuunnendur Vesturlands var stofnað vorið 1979 á Hvanneyri í Borgarfirði og voru stofnmeðlimir tólf talsins, meðlimir félagsins hafa líklega flestir verið á sjötta tug talsins en hefur fækkað verulega þar sem lítil endurnýjun hefur átt sér stað innan þess – reyndar liggur ekki fyrir hvort félagið er enn starfandi því engar upplýsingar er að finna um starfsemi þess eftir 2018.

Engar upplýsingar er að finna hver eða hverjir gegndu formennsku í félaginu til að byrja með en Ingimar Einarsson var formaður árið 1987 – um svipað var stofnuð tíu manna hljómsveit innan félagsins sem starfaði undir stjórn Hannesar Baldurssonar. Gunnar Gauti Gunnarsson tók við formennsku af Ingimari en einnig hafa Geir Guðlaugsson (þrívegis), Guðmundur Helgi Jensson, Rafn Jónsson, Þórður Sveinsson, Jón Heiðar Magnússon og Einar Óskarsson gegnt því embætti. Starfsemi félagsins hefur verið með nokkuð hefðbundnum hætti þegar kemur að slíkum félögum, dansleikir, skemmtifundir og sumarhátíðir hafa t.a.m. verið fastur liður í félagsstarfinu.

Óskað er eftir frekari upplýsingum um Harmonikuunnendur Vesturlands.