Afmælisbörn 22. október 2023

Sigurður Kr. Sigurðsson

Fjórir tónlistarmenn eru á afmælisbarnaskrá Glatkistunnar í dag:

Steinn Kárason tónlistarmaður og umhverfishagfræðingur frá Sauðárkróki er sextíu og níu ára gamall á þessum degi. Steinn starfaði á árum áður með hljómsveitunum Djöflahersveitinni og Háspennu lífshættu í Skagafirði en gaf út sólóplötuna Steinn úr djúpinu fyrir fáeinum árum, hann hefur einnig gefið út smáskífu í samstarfi við Schola Cantorum.

Bergþór Pálsson söngvari og leikari er sextíu og sex ára gamall í dag. Bergþór nam hér heima og í Englandi og Bandaríkjunum, hann hefur sungið ýmis óperuhlutverk auk annarra verkefna á sviði auk þess að syngja á plötum fjölmarga tónlistarmanna og kóra, ýmist sem einsöngvari eða í dúett. Hann hefur gefið út dúettaplötur með Eyjólfi Kristjánssyni, Helga Björnssyni, Signýju Sæmundsdóttur, Sólrúnu Bragadóttur og Ólafi Kjartani Sigurðssyni og hefur undanfarið sungið með Sætabrauðsdrengjunum.

Sigurður Kristmann Sigurðsson (oft kallaður Siggi kjötsúpa á árum áður) átti afmæli á þessum degi. Sigurður (1955-2017) varð landsþekktur þegar hann söng lagið Íslensk kjötsúpa með samnefndri hljómsveit undir lok áttunda áratugarins en hann söng jafnframt með nokkrum öðrum hljómsveitum á ferli sínum, misþekktum. Hér má nefna sveitir eins og Droplaugu, Berlín, Systur Söru, Stofnþel, Eik og Tívolí.

Að síðustu er hér nefndur sem eitt af afmælisbörnum dagsins hinn hálf ungverski Baldur Georgs Tackás (1929-94) sem menn þekkja sem tvíeykið Baldur og Konni en fjölmargar plötur komu út með þeim félögum á sjötta og sjöunda áratugnum og nutu þeir gríðarmikilla vinsælda meðal barna og fullorðinna. Fyrir þá sem ekki átta sig má nefna að Konni var brúða og Baldur var búktalari.

Vissir þú að minnsta kosti þrjár hljómsveitir hafa borið nafnið Pez?