Hattímas (1974-77)

Þetta mun vera Hattímas á sviði Kópavogsbíós

Unglingahljómsveit starfaði í Kópavogi um nokkurra ára skeið undir nafninu Hattímas en hún skartaði m.a. ungum tónlistarmönnum sem síðar urðu þekktir.

Svo virðist sem sveitin hafi fyrst komið fram á sjónarsviðið vorið 1974 þegar hún keppti í hæfileikakeppni í Kópavoginum og hafnaði þar í þriðja sæti, ekki er getið um meðlimi sveitarinnar þar en næst þegar hún komst á síður dagblaðanna var þegar hún lék á tónleikum sumarið 1977 – þá voru meðlimir hennar Benedikt Guðmundsson hljómborðsleikari (síðar þekktur knattspyrnumaður), Sigurður Jónsson gítarleikari (síðar saxófónleikari m.a. í Milljónamæringunum), Birgir Mogensen bassaleikari (Spilafífl o.fl.), Jón Ragnar Jónsson gítarleikari og Sigtryggur Baldursson trommuleikari (Sykurmolarnir, Bogomil Font o.m.fl.) en þeir voru þá á aldrinum 14-16 ára. Sveitin virðist ekki hafa starfað lengi eftir það en Frostrósir var stofnuð upp úr henni og hljómsveitin Þeyr þróaðist smám saman upp úr því samstarfi.