
Hálfbræður
Hálfbræður er fyrirbæri sem skemmti víða um höfuðborgarsvæðið um eins árs skeið í kringum miðjan áttunda áratug síðustu aldar, en erfitt er að skilgreina hvers eðlis fyrirbærið var.
Hálfbræður urðu til innan Menntaskólans við Hamrahlíð og komu fyrst fram að því er virðist á innanskólaskemmtun um haustið 1974 og þá sem karlakór – litlu síðar komu þeir svo fram í sjónvarpsþætti. Ekki liggur fyrir hversu margir skipuðu þennan karlakór en nokkru síðar þenna sama vetur voru þeir farnir að skemmta utan skólans og virðist þá hafa verið sextett og enn síðar voru þeir orðnir fjórir og voru þá komnir í eins konar gríngír í anda Halla og Ladda, með undirleik á segulbandi. Óljóst er hvort þeir voru þá enn syngjandi eða hvort grínið hafi þá endanlega tekið yfir. Þeir nutu töluverðra vinsælda og voru m.a. meðal skemmtiatriða á bindindismóti í Galtalæk um verslunarmannahelgina 1975.
Hálfbræður virðast hafa hætt störfum um haustið 1975.














































