
Merki Harmoníkufélags Héraðsbúa
Harmonikkufélag hefur verið starfandi á Héraði lengi vel og er það eitt af elstu starfandi félögum sinnar tegundar hérlendis, félagið hefur alla tíð verið öflugt.
Það var vorið 1984 sem félagsskapur að nafni Félag harmonikuunnenda á Fljótsdalshéraði var stofnað og voru stofnmeðlimir þess fjórtán talsins en aðal tilgangur félagsins var að viðhalda og útbreiða harmonikkutónlist í héraðinu, aðal hvatamaður að stofnun þess var Jón Sigfússon en fyrsti formaður félagsins var Hreggviður Jónsson. Fljótlega komu upp raddir um að nafn félagsins væri af langt og var því þá breytt í Harmoníkufélag Héraðsbúa og hefur haldið því nafni síðan.
Tilkoma félagsins breytti miklu fyrir tónlistarlífið á Héraði, áhugafólk um harmonikkutónlist fann sér þar sameiginlegan umræðu- og spilavettvang og fljótlega urðu til hefðir innan þess sem sumar hverjar hafa haldist síðan, þannig hafa dansleikir verið fastir liðir á Hótel Valaskjálf á Egilsstöðum og um langa tíð hafa verið haldin skemmtikvöld og sumarhátíðir innan félagsins. Um tíu ára skeið voru haldnar vinsælar dægurlagakeppnir innan Harmoníkufélags Héraðsbúa og léku hljómsveitir undir stjórn Jónasar Þórs Jóhannssonar gjarnan undir þeim keppnum, dæmi voru um að innsend lög í keppnina væru á fjórða tug og var úrslitakeppnin iðulega haldin með pomp og prakt, með borðhaldi og dansleik á eftir. Sigurlagið úr keppninni 1993 var svo einkennislag Landsmóts Sambands íslenskra harmonikuunnenda sem þá var haldið á Héraði.
Harmoníkufélag Héraðsbúa hefur verið duglegast allra slíkra félaga að gefa út kassettur og geisladiska með tónlist félagsmanna, og t.a.m. hafa komið út slíkar útgáfur með lögum úr ofangreindum dægurlagakeppnum, þá hefur einnig komið út plata þar sem finnski harmonikkuleikarinn Tatu Kantomaa leikur lög eftir félagsmenn en hann bjó og starfaði á Héraði um árabil eftir að hafa komið upphaflega þangað sem gestur á harmonikkuhátíð árið 1993.
Frá upphafi hafa fjölmargir sinnt formennsku í Harmoníkufélagi Héraðsbúa, sem fyrr er greint var Hreggviður Jónsson fyrsti formaður félagsins en ári síðar tók Guttormur Sigfússon við formennsku, hann var formaður til 1993 þegar Hreinn Halldórsson tók við og var til 1995 en hann tók svo aftur við og gegndi formennsku til 1998. Þá var komið að Halldísi Hrafnkelsdóttur sem var formaður á árunum 1998-2000 og enn tók Guttormur við og var til 2004 en þá kom Dvalinn Hrafnkelsson til sögunnar. Sveinn Vilhjálmsson var formaður félagsins á árunum 2008-10 en þá tók Jón Sigfússon við og gegndi því þar til núverandi formaður, Halldís Hrafnkelsdóttir tók við.
Harmoníkufélag Héraðsbúa starfar enn í dag og starfar af fullum krafti eftir því sem best er vitað.














































