Haukur Hauksson ekkifréttamaður (1991-)

Haukur Hauksson (Hjálmar Hjálmarsson)

Fjölmiðlamaðurinn Haukur Hauksson ekkifréttamaður var hugarfóstur leikarans Hjálmars Hjálmarssonar og varð til snemma á tíunda áratug síðustu aldar, hann naut um tíma töluverðra vinsælda.

Haukurinn kom fyrst fram á sjónarsviðið í síðdegisútvarpsþætti Rásar 2 sem óðamála fréttamaður þar sem hann var með eins konar stutt innslög um málefni sem brunnu þá á þjóðinni en þar klippti hann saman brot úr viðtölum við þekkt fólk (gjarnan stjórnmálafólk) og lét dæluna ganga þess á milli eins og um samfellu væri að ræða. Út kom „fréttaform“ þar sem miklar upplýsingar komu fram á mjög stuttum tíma, svo stuttum að hlustendum gafst varla kostur á að fylgjast með „fréttinni“ sem var full af kaldhæðni og gríni í garð viðkomandi og reyndar oftar en ekki á mörkum þess að vera ósmekklegt og særandi enda var Haukurinn yfirleitt umdeildur, og innan Ríkisútvarpsins voru yfirboðaðar sem vildu hann burt.

Segja má að Haukur ekkifréttmaður hafi verið vinsælastur fyrstu þrjú árin, á árunum 1991-94 en húmorinn var nokkuð í anda þeirra Radíus-bræðra sem þá voru að koma einnig til sögunnar en nokkur tengsl voru þarna á milli enda kom Hjálmar nokkuð við sögu Radíus-bræðra í grín sjónvarpsþáttunum Limbó. Ekkifrétta-innslögin voru sem fyrr segir stutt fréttainnskot frumflutt í síðdegisútvarpinu og svo var samantekt úr þeim endurtekin um helgar. Eftir 1994 var Haukurinn ekki með eins samfellda innkomu í útvarpinu heldur birtist hann með hléum og á sama tíma var hann að koma fram á öðrum vettvangi, allt fram yfir aldamót en árið 2003 hætti hann alveg á Rás 2 eftir samstarfsörðugleika og ágreining um laun. Haukur birtist svo um hríð á útvarpsstöðinni Talstöðinni sem var í eigu 365 miðla en hvarf svo að mestu að því loknu.

Árið 1993 kom út safnplata á vegum Spors í samstarfi við Rás 2 með úrvali vinsælla laga frá ýmsum tímum en inni á milli voru innslög með Hauki auk þess sem ekkifréttamaðurinn flutti sjálfur tvö lög, annars vegar Haukurinn sem var grínútgáfa af lagi Sálarinnar hans Jóns míns – Krókurinn, og hins vegar lagið Þorskurinn sem dó en það lag var í anda Bubba Morthens.

Efni á plötum