Systurnar Heiða og Maja eða Heiða Hrönn (f. 1939) og Anna María Jóhannsdætur (f. 1940) komu nokkuð við sögu norðlensks tónlistarlífs um miðjan sjötta áratug síðustu aldar en þær sungu þá víða á skemmtunum og jafnvel á dansleikjum sem tvíeyki, og voru þá gjarnan auglýstar sem Heiða og Maja. Þær systur eru dætur Jóa Konn. (Jóhanns Konráðssonar) söngvara og þ.a.l. systur Svavars Hákons, Jóhanns Más og Kristjáns Jóhannssona og þannig af mikilli söngfjölskyldu en móðir þeirra, Fanney Oddgeirsdóttir söng einnig.
Heiða og Maja voru á unglingsaldri þegar þær sungu sem mest saman undir því nafni, bæði við píanóundirleik en einnig eitthvað með hljómsveitum á Akureyri á dansleikjum s.s. H.B. kvartettnum. Heiða Hrönn hætti fljótlega öllum opinberum söng en Anna María átti eftir að syngja með fjölmörgum danshljómsveitum s.s. Atlantic kvartettnum, Rúbín kvartettnum og hljómsveit Karls Jónatanssonar svo fáeinar séu nefndar.














































