Fjöll með smáskífu og tónleika

Fjöll

Hljómsveitin Fjöll gefur í dag út sína þriðju smáskífu á árinu en sveitin hefur undanfarið verið að vinna að upptökum í Hljóðrita ásamt Kristni Sturlusyni, nýja lagið ber heitið Lengi lifir en áður hafði sveitin sent frá sér lögin Festar og Í rokinu. Lengi lifir er nú aðgengilegt á Spotify og hér má nálgast það. 

Sveitin undirbýr sig jafnframt fyrir tónleika, en þeir félagar munu spila ásamt Soma í Ölveri föstudaginn 8. desember. Fjöll og Soma tengjast nokkuð sterkum böndum, því þrír meðlimir Fjalla, Guðmundur Annas Árnason söngvari, Snorri Gunnarsson gítarleikari og Kristinn Jón Arnarson bassaleikari hófu einmitt samstarf í Soma sem náði töluverðum vinsældum seint í níunni. Soma kom aftur saman árið 2021 eftir ríflega 20 ára hlé og verða þetta þriðju tónleikar sveitarinnar eftir það.

Í Fjöllum eru einnig Ragnar Þór Ingólfsson, sem spilar á trommur og Guðmundur Freyr Jónasson gítarleikari. Ragnar spilaði með hljómsveitunum Guði gleymdir og Los, einnig í níunni, en hefur nú dregið fram trommusettið á nýjan leik. Guðmundur Freyr er nýgenginn til liðs við Fjöll, en hann spilaði m.a. í hljómsveitinni Vígspá, sem var áberandi í harðkjarnasenunni í kringum aldamótin.