
Verðlaunahafar í Hörpu
Dagur íslenskrar tónlistar er haldinn hátíðlegur í dag, fullveldisdaginn 1. desember með margvíslegum hætti en í tónlistarhúsinu Hörpu hafa Samtónn og hagsmunasamtök í íslenskri tónlist staðið fyrir hátíðardagskrá undanfarin ár þar sem veittar eru viðurkenningar til þeirra sem þykja hafa lagt á vogarskálar íslenskrar tónlistar.
Slík dagskrá fór fram í morgun þar sem slíkar viðurkenningar voru veittar í bland við tónlistaratriði sem hljómsveitin Celebs, Jóhann Helgason og Elín Hall fluttu, og er skemmst frá því að segja að Glatkistan hlaut heiðursverðlaun Dags íslenskrar tónlistar – Lítinn fugl, að þessu sinni „fyrir að fjalla um íslenska tónlist og menningu af miklum metnaði og ástríðu um árabil“. Glatkistan þakkar kærlega fyrir þann mikla heiður sem vefsíðunni er sýndur með þessum hætti.
En fleiri viðurkenningar voru veittar í morgunsárið í Hörpu, Hvatningarverðlaun á Degi íslenskrar tónlistar hlaut hljómsveitin Korda Samfónía – tónlistarverkefni á vegum Metamorphonics í samstarfi við Tónlistarborgina Reykjavík, Listaháskóla Íslands, tónlistarhúsið Hörpu, Landssamtökin Geðhjálp og endurhæfingarstöðvar, Gluggann svokallaða hlaut Þjóðhátíð í Vestmannaeyjum fyrir að halda úti metnaðarfullri tónlistardagskrá og stuðla að nýsköpun með árlegu Þjóðhátíðarlagi, Lilja Dögg Alfreðsdóttir menningar-, viðskipta- og ferðamálaráðherra hlaut nýsköpunarverðlaunin fyrir að setja á stofn Tónlistarmiðstöð Íslands og útflutningsverðlaunin hlaut umboðsskrifstofan Iceland Sync fyrir starfsemi sína síðasta áratuginn. Að lokum var Rás 2 heiðruð á afmælisdegi sínum en stöðin fagnar í dag fjörutíu ára afmæli.
Glatkistan óskar öllum öðrum verðlaunahöfum til hamingju með viðurkenningarnar.














































