
Háskólabíó (fyrir stækkun)
Háskólabíó er þrátt fyrir nafngiftina jafn tengt tónleikahaldi og kvikmyndasýningum, þegar þetta er ritað hafa reyndar bíósýningar lagst af í húsinu en tónleikar og annað skemmtana- og ráðstefnuhalds verða tengd húsnæðinu áfram.
Hugmyndir um kvikmyndahús í eigu Háskóla Íslands voru lengi á teikniborðinu áður en þær komust til framkvæmda og t.d. stóð til um tíma að slíkt hús myndi rísa í Austurstræti, þá hafði háskólinn rekið bíó um skeið í leiguhúsnæði, Tjarnarbíói. Nýja kvikmyndahúsinu var þó valin staðsetning á Melunum og voru þeir Gunnlaugur Halldórsson og Guðmundur Kr. Kristinsson arkítektar fengnir til að hanna húsið sem var svo reist á árunum 1956-61 og vígt haustið 1961 á fimmtíu ára afmæli Háskóla Íslands. Ekki voru allir sáttir við nafngiftina Háskólabíó og risu upp einhverjar deilur vegna þess, enda vildu margir fá virðulegra nafn á hið nýja glæsilega hús. Háskólinn var með kvikmyndasýningarekstur í húsinu allt til ársins 2002 þegar samningur var gerður um Senu um reksturinn, en þegar Sena sagði þeim samningi upp sumarið 2023 var bíósýningum hætt í húsinu.
Háskólabíó var allt frá upphafi aðsetur og tónleikasalur Sinfóníuhljómsveitar Íslands, og fyrstu tónleikar hennar þar voru fljótlega eftir vígslu hússins, þá strax um haustið voru t.a.m. settir á svið tónleikar með sinfóníuhljómsveitinni sem þá innihélt 70 manns og 60 manna kór svo menn gátu þá séð hversu stórt og öflugt húsið var. Aðstæður Sinfóníuhljómsveitarinnar til æfingahalds í Háskólabíói voru þó fremur bágar en þar hírðist sveitin við þrengsli í áratugi eða allt þar til tónlistarhúsið Harpa var vígt árið 2011, tilfinningar eldri liðsmanna sveitarinnar munu þó hafa verið blendnar þegar gömlu húsakynnin á Melunum voru yfirgefin enda var sinfóníuhljómsveitin rótgróin húsinu og gjarnan nefnd Melabandið. Hins vegar þótti hljómburðurinn í húsinu aldrei hentugur fyrir sinfónískt tónleikahald.

Frá vígslu Háskólabíós 1961
Annars konar tónleikahald hefur fylgt Háskólabíói allt frá opnun hússins árið 1961 og svo verður sjálfsagt um ókomna tíð. Þar hafa verið haldnir tónleikar og tónlistartengdar skemmtanir af ýmsu tagi og hefur húsið verið vel nýtt til slíks einkum yfir vetrartímann og í jólamánuðinum þegar jólatónleikar herja á landann. Stærri tónleikar eru yfirleitt haldnir í húsinu en aðal salur hússins hýsir um þúsund manns, minni salirnir sem eru alls fjórir (eftir stækkun hússins á níunda áratugnum) bera samtals um átta hundruð gesti en tónleikahald er ekki eins algengt í þeim. Tónlistarfólk af öllum stærðum og gerðum hafa flutt tónlist sína í húsinu og hér eru nefnd af handahófi fólk eins og Haukur Morthens, Guðrún Á. Símonar, Hljómar, Stuðmenn og Fjórtán Fóstbræður, Lúðrasveit Reykjavíkur og svo mætti áfram endalaust telja. Stundum var handagangur í öskjunni þegar þurfti að tæma sviðið eða fylla það af búnaði tónlistarmanna milli kvikmyndasýninga en það tíðkaðist hér einkum fyrr á árum, þá keyptu tónleikahaldarar upp sýningar og héldu tónleika í staðinn en aðrar bíósýningar féllu ekkert endilega niður á meðan.
Auk tónleikahalds hafa fjölmargar hljómplötur verið hljóðritaðar í Háskólabíói, þær upptökur hafa bæði verið gerðar á tónleikum og einnig hefur húsið verið nýtt sem hljóðver fyrir stærri hópa tónlistarfólks s.s. kóra og stærri hljómsveita s.s. lúðrasveitar og svo auðvitað sinfóníuhljómsveitarinnar.
Þrátt fyrir að kvikmyndasýningum sé nú lokið í Háskólabíói bendir ekkert annað til þess en að húsið verði áfram nýtt til tónleikahalds og tónlistartengdra viðburða áfram.














































