Haukur Þorsteinsson (1932-93)

Haukur Þorsteinsson

Haukur Þorsteinsson var það sem kalla mætti félagsmálatröll en hann stóð framarlega í öllu félagslífi Sauðkrækinga um árabil, hann var t.a.m. öflugur liðsmaður leikfélagsins á Króknum og starfrækti hljómsveitir um árabil.

Haukur var fæddur (snemma árs 1932) og uppalinn á Sauðárkróki þar sem hann hóf að leika fremur ungur á harmonikku en nikkan og saxófónninn urðu hans aðalhljóðfæri, hann mun reyndar hafa spilað á flest hljóðfæri og var jafnframt liðtækur söngvari enda bróðir Erlu Þorsteinsdóttur söngkonu, og söng oft með hljómsveitum sínum.

Haukur mun fyrst hafa starfað með hljómsveit Harðar Guðmundssonar (H.G. kvintettnum) undir lok fimmta áratugarins en starfrækti eigin hljómsveit (Hljómsveit Hauks Þorsteinssonar) um árabil líklega á árunum 1957 til 67, með hléum þó þar sem hann stundaði sjómennsku á þeim árum. Hann tók jafnframt ríkan þátt í Sæluviku Sauðkrækinga og mun hljómsveit hans oft hafa leikið fyrir dansi á þeirri hátíð auk þess sem hann söng stundum í sönglagakeppni þeirri sem kennd er við Sæluvikuna. Haukur starfaði um skeið með hljómsveit Sveins Ingasonar en hætti svo hljómsveitaspilamennsku að mestu leyti þar sem leiklistaráhuginn tók yfir – hann mun þó eitthvað hafa annast spilamennsku í tengslum við leiksýningar og var virkur félagi í Jazzklúbbi Sauðárkróks þar sem hann spilaði nokkuð á djasstengdum uppákomum.

Haukur Þorsteinsson lést haustið 1993 aðeins sextugur að aldri.