Heiðursmenn [2] (1991-2004)

Lítið liggur fyrir um pöbbahljómsveit sem gekk undir nafninu Heiðursmenn en hún starfaði á síðasta áratug liðinnar aldar og fram á þessa öld.

Heiðursmenn virðast hafa komið fram á sjónarsviðið snemma árs 1991 en ekkert liggur fyrir um sveitina þá nema að Kolbrún Sveinbjörnsdóttir var söngkona hennar – og var það reyndar alla tíð. Sveitin lék töluvert mikið á því ári en síðan hvarf hún af sjónarsviðinu og birtist ekki aftur fyrr en 1997, ekki er víst að hún hafi þó verið í pásu allan þann tíma. Næstu tvö árin voru Heiðursmenn og Kolbrún töluvert auglýst í ballauglýsingadálkum dagblaðanna og spilaði þá að því er virðist víða um land, árið 1999 birtist nafn Ágústs Atlasonar  (Ríó tríó o.fl.) tengt sveitinni en hann var þá söngvari ásamt Kolbrúnu og lék líkast til á gítar einnig, þá mun Stefán P. Þorbergsson hafa verið í sveitinni um skeið um þetta leyti. Litlu síðar kemur einnig fyrir nafnið Gunnar í heimildum og voru Heiðursmenn þá tríó en eftir aldamót er sveitin orðin að fullskipaðri hljómsveit með þau Kolbrúnu, Gunnar Bernburg bassaleikara, Baldur Má Arngrímsson gítarleikara, Guðmar Marelsson trommuleikara og Ólaf Má Ásgeirsson hljómborðsleikara. Þannig virðist sveitin hafa verið skipuð uns hún hætti störfum árið 2004.

Af framangreindu má sjá að margir hafa komið við sögu Heiðursmanna og að margt er einnig óljóst í sögu sveitarinnar, því er óskað eftir frekari upplýsingum um þessa sveit.