Hljómsveit Akraness var um margt merkileg sveit en hún var fyrsta starfandi danshljómsveitin á Skaganum.
Hljómsveitin var stofnuð árið 1941 á Akranesi og var í byrjun tríó sem þeir Ingólfur Runólfsson harmonikkuleikari, Eðvarð Friðjónsson harmonikkuleikari og Ásmundur Guðjónsson skipuðu, upphaflega var því um að ræða eins konar harmonikkuhljómsveit sem síðar átti eftir að verða að hefðbundinni danshljómsveit.
Sveitin átti eftir að starfa í nokkur ár undir þessu nafni eða allt til 1948 – Sveinn Jóhannsson trommuleikari kom inn í hana og við þær breytingar færði Ásmundur sig yfir á klarinettu og altó saxófón, og Eðvarð lék þá einnig á tenór saxófón, með tímanum færði Ingólfur sig yfir á píanó svo harmonikkan fékk smám saman minna vægi. Sólrún Yngvadóttir eiginkona Ásmundar söng stundum með sveitinni og telst þá áreiðanlega meðal allra fyrstu dægurlagasöngkona landsins en einnig söng Sigurður Björnsson stöku sinnum með þeim félögum, þá lék einnig Ole Östergaard gítarleikari með sveitinni í nokkur skipti.
Hljómsveit Akraness þótti æði góð hljómsveit og brá sér stundum í djasssveiflu þegar svo bar undir en hún þótti líka hafa líflega sviðsframkomu sem var ekki beinlínis normið á fimmta áratugnum. Sveitin lék mikið á dansleikjum og við önnur tækifæri meðan hún starfaði, á Akranesi lék sveitin mest í Bárunni og á Hótel Akranesi en einnig lék hún nokkuð í Borgarnesi og jafnvel í Reykjavík, aukinheldur lék hún á fjölmörgum sveitaböllum yfir sumartímann og segir sagan að eitt sinn hafi sveitin verið að leika á dansleik í Lundarreykjadal í Borgarfirðinum og þurfti að fara yfir straumharða á sem bílar komust ekki yfir, því hafi þurft að ferja mannskapinn og hljóðfærin yfir ána á hestum (sem var víst í nokkrum vexti eftir miklar rigningar) og einn hljómsveitarmeðlima hafi farið í ána þegar hestur hans lenti í djúpum hyl. Honum mun þó ekki hafa orðið meint af volkinu.
Um haustið 1948 bættist Ríkharður Jóhannsson (bróðir Sveins) altó saxófón- og klarinettuleikari í sveitina og þá urðu enn frekari breytingar á hljóðfæraskipan hennar, og um leið var nafni hennar breytt í E.F. kvintettinn og starfaði hún undir því nafni í fjölmörg ár eftir þetta – ungir tónlistarmenn á Skaganum litu mjög til sveitarinnar og má segja að Skagasveitin Dúmbó hafi verið stofnuð undir nokkrum áhrifum frá Hljómsveit Akraness og E.F. kvintettnum.














































