Nokkrar hljómsveitir hafa gengið undir nafninu Hljómsveit Akureyrar og á öðrum áratug tuttugustu aldarinnar voru í rauninni tvær eða þrjár sveitir undir því sama nafni, þeim er hér spyrt saman í eina umfjöllun.
Árið 1914 var stofnuð hljómsveit á Akureyri undir þessu nafni og mun hún hafa starfað um tveggja ára skeið – þessi sveit gekk líklega stundum einnig undir nafninu Hljóðfærasveit Akureyrar og mun vera fyrsta starfandi hljómsveitin á Akureyri. Það mun hafa verið Hjalti Espólín Sigtryggsson sem hafði veg og vanda af stofnun hennar en heimildir herma að hún hafi verið níu manna og leikið undir stjórn Hjalta sem sjálfur lék á trompet, Sigurgeir Jónsson fiðluleikari var einnig meðal meðlima sveitarinnar en ekki liggja fyrir upplýsingar um aðra – sveitin mun í grunninn hafa verið blásarasveit. Þessi sveit hélt nokkra tónleika meðan hún starfaði, líklega fóru þeir flestir fram í Góðtemplarahúsinu á Akureyri og þá iðulega fyrir fullu húsi.
Árið 1916 er önnur sveit undir sama nafni komin á sjónarsviðið og mun hún að einhverju leyti hafa verið skipuð þeim sömu og voru í fyrrnefndu sveitinni. Þessi sveit mun hafa starfað í tvö ár, fyrra árið undir stjórn Hjalta Espólín en síðara árið undir stjórn Þórarins Guðmundssonar fiðluleikara (og tónskálds) en uppistaðan í henni voru strengir svo blásararnir voru þá í minnihluta, efnisskrá hennar fór um víðan völl og mun sveitin bæði hafa leikið brot úr óperum sem og lög sr. Bjarna Þorsteinssonar svo dæmi séu tekin en hún lék á nokkrum tónleikum í Góðtemplarahúsinu meðan hún starfaði, m.a. lék sveitin undir einleik Þórarins fiðluleikara. Þessi sveit var tólf manna og voru meðlimir hennar Sigurður Þórðarson (síðar kórstjóri og tónskáld), Þórarinn Guðmundsson, [Carl Jóhann?] Lilliendahl, Sigurgeir Jónsson, Sigþór Magnússon og Valdimar Einarsson fiðluleikarar, Páll Þorkelsson kontrabassaleikari, Jón Ívarsson píanóleikari, [Johan Heinrich?] Bebensee básúnuleikari, Helgi Pétursson flautuleikari, Hallgrímur Sigtryggsson klarinettuleikari og Ólafur Th. Ólafsson althornleikari.
Þriðja Hljómsveit Akureyrar starfaði 1918-19 undir stjórn Þórarins Guðmundssonar fiðluleikara en ekki liggja fyrir neinar frekari upplýsingar um hana nema að hún telst ekki vera sama sveit og um ræðir hér að ofan.














































