Afmælisbörn 26. desember 2023

Trausti Júlíusson

Á þessum öðrum degi jóla er að finna tvö afmælisbörn tengd íslenskri tónlist:

Trausti Júlíusson blaðamaður, plötugrúskari og tónlistargagnrýnandi er sextugur og fagnar því stórafmæli í dag. Trausti hefur fjallað um tónlist frá ýmsum hliðum og setið í ýmsum ráðum og nefndum tengdum íslenskri tónlist s.s. tónlistarsjóði Kraums. Trausti hefur ennfremur leikið með hljómsveitum eins og Vídeósílunum, Ást og Stunu úr fornbókaverslun.

Þá á Þórarinn Freysson bassaleikari hljómsveitarinnar Sixties einnig stórafmæli á þessum degi en hann er fimmtugur. Þórarinn hefur leikið inn á fjölda platna með Sixties en á yngri árum sínum lék hann með sveitum sem spiluðu öllu harðari tónlist, meðal þeirra má nefna In Memoriam, Mortuary og Bone China en auk þess hefur hann leikið á bassa með sveitum eins og Kinkí og T-Vertigo.

Vissir þú að Gylfi Þ. Gíslason doktor í hagfræði, stjórnmálamaður og ráðherra var einnig tónskáld og eftir hann liggur nokkur fjöldi þekktra sönglaga?