
Már Magnússon
Þrjú afmælisbörn eru á skrá Glatkistunnar í dag:
Óperusöngvarinn Már Magnússon hefði átt afmæli á þessum degi en hann lést 2018. Már fæddist 1943, nam söng hér á landi hjá Sigurði Demetz, Maríu Markan og Einari Kristjánssyni áður en hann fór til söngnáms í Austurríki þar sem hann bjó og starfaði til ársins 1977. Þá kom hann heim til Íslands og fékkst m.a. við söngkennslu, auk annarra starfa hér heima og erlendis. Már söng á fjölda tónleika hér heima og erlendis, m.a. óperuhlutverk og í leikhúsi. Eftir hann liggur ein plata, Bréf að norðan: íslensk sönglög, sem kom út 1995.
Einnig átti Selma (Cecelia María) Kaldalóns píanóleikari og tónskáld (fædd 1919) þennan afmælisdag en hún lést af slysförum 1984. Lög Selmu hafa komið út á plötum og m.a. hafa komið út plötur með lögum hennar og svo með lögum hennar og Sigvalda Kaldalóns föður hennar. Píanóleik Selmu má einnig heyra á nokkrum útgefnum plötum.
Þá fagnar tónlistarmaðurinn Tómas van Oosterhout tuttugu og þriggja ára afmæli sínu á þessum degi en hann hefur starfað með hljómsveitum og tónlistarfólki á borð við Sameheads, Charliedwarf, Logo dog, Tiny cali girls og Skincare suicide.
Vissir þú að Hallgrímur Helgason rithöfundur og myndlistarmaður myndskreytti plötuumslag plötunnar Lífsleiðin(n) með Sverri Stormsker?














































