Heimir Már Pétursson (1962-)

Heimir Már Pétursson

Heimi Má Péturssyni er margt til lista lagt, hann hefur t.a.m. starfað við fjölmiðla, stjórnmál og utanumhald Hinsegin dag en hann hefur einnig fengist við tónlist – bæði sem tónlistarmaður og textahöfundur fyrir aðra.

Heimir Már Pétursson er fæddur á Ísafirði vorið 1962 og ólst upp þar, í Reykjavík og á Kópaskeri. Hann lauk námi í stjórnmálafræði og fjölmiðlun og hefur starfað lengi við fjölmiðla s.s. sem blaðamaður hjá Þjóðviljanum, Bændablaðinu, Helgarblaðinu og Norðurlandi (á Akureyri) en hann var jafnframt ritstjóri síðast talda blaðsins, hann skrifaði m.a. um tónlist og dægurmál í Þjóðviljanum. Heimir hefur þó lengst af starfað sem fréttamaður á Stöð 2, Bylgjunni, Vísi og víðar og er líklega þekktastur sem slíkur en hann hefur jafnframt starfað í kringum alþýðubandalagið m.a. sem framkvæmdastjóri og einnig sem framkvæmdastjóri Hinsegin daga í fjölmörg ár, sem upplýsingafulltrúi Flugmálastjórnar og Iceland express svo dæmi séu nefnd.

Heimir á að baki tónlistarferil en hann var söngvari og hljómborðsleikari hljómsveitarinnar Reflex sem starfaði á árunum 1982-83 en sú sveit vann sér til frægðar að komast í úrslit fyrstu Músíktilraunanna sem fóru fram haustið 1982. Á þeim árum hafði hann sent frá sér sína fyrstu ljóðabók en nokkrar slíkar hafa komið út síðan þá, – þá hefur hann samið fjölmarga texta fyrir Rúnar Þór eldri bróður sinn, sem komið hafa út á fjölmörgum plötum Rúnars. Heimir hefur jafnframt samið texta á plötum Ásgeirs Óskarssonar og Bítlavinafélagsins.

Heimir hafði sjálfur lítið komið að tónlist nema sem textahöfundur þar til árið 1999 að út kom sólóplata í hans nafni sem bar titilinn Maður sem þorir… Á plötunni var að finna bæði lög við texta Heimis og ljóð eftir hann lesin upp af Kolbrúnu Halldórsdóttur, Felix Bergssyni og fleirum. Heimir var sjálfur ekki meðal flytjenda á plötunni en það var hann hins vegar á plötunni Leiðin til Kópaskers sem kom út í nafni Hnotubrjótanna árið 2011 en það voru þeim Heimir og Þór Eldon (ljóðskáld og fyrrverandi Sykurmoli) sem skipuðu þann dúett. Heimir sá um söng á plötunni en fjölmargir tónlistarmenn komu að gerð þeirrar plötu reyndar rétt eins og fyrri plötunnar hér að ofan.

Efni á plötum