Afmælisbörn 29. desember 2023

Vilhjálmur frá Skáholti

Þá er komið að afmælisbörnum dagsins sem eru fjögur talsins að þessu sinni:

Alma (Goodman) Guðmundsdóttir söngkona er þrjátíu og níu ára gömul í dag. Alma er hvað kunnust fyrir framlag sitt til söngsveitarinnar Nylons (síðar The Charlies) en hún kom einnig lítillega við sögu Eurovision undankeppninnar hér heima nýlega, hún býr nú og starfar í Bandaríkjunum.

Viðar Gunnarsson bassasöngvari er sjötíu og þriggja ára á þessum degi. Hann hafði sungið með nokkrum kórum áður en hann hóf söngnám kominn fast að þrítugu, hann fór svo til framhaldsnáms í Svíþjóð (og síðar Ítaliu) og eftir að hann kom heim aftur söng hann ýmis óperuhlutverk hér heima áður en hann fékk óperusamning í Þýskalandi um fertugt og bjó þar og starfaði lengi áður en hann kom aftur heim. Söng Viðars má heyra á fjölda platna.

Vilhjálmur (Björgvin Guðmundsson) frá Skáholti (1907-63) hefði einnig átt þennan afmælisdag en hann var fyrst og fremst ljóðskáld og hafa mörg ljóða hans orðið þekkt í flutningi tónlistarmanna. Þar má nefna Ó borg mín borg, Jesús kristur og ég og Herbergið mitt.

Og að lokum er hér nefndur tónlistarmaðurinn Hlynur Höskuldsson (fæddur 1953), hann lék á bassa (og hljómborð) með fjölmörgum hljómsveitum og þeirra þekktust var án efa Silfurtónar en einnig má nefna sveitir eins og Dá, Eilífð, De Vunderfoolz, Dýpt, Fífí & Fófó, Jamisus og Barbie. Hlynur lést fyrr á þessu ári.

Vissir þú að lagið Vestmannaeyjar eftir Arnþór Helgason var á sínum tíma gefið út í Kína í flutningi kínversks barnakórs?