Hljómsveit Árna Björnssonar (1934-36)

Hljómsveit Árna Björnssonar

Hljómsveit Árna Björnssonar starfaði um tveggja til þriggja ára skeið og virðist hafa farið og leikið fyrir dansi og á tónleikum víða um land á árunum 1934 til 36.

Meðlimir sveitarinnar voru allir lærðir tónlistarmenn og áttu eftir að vera áberandi í klassíska geira tónlistarinnar og létu það ekki eftir sér að leika léttari tónlist, eitt sumarið starfaði sveitin til að mynda á Siglufirði en síldarævintýrið var á þeim tíma í hámarki – jafnframt mun sveitin bæði hafa leikið á Akureyri og Ísafirði svo dæmi séu nefnd, á Ísafirði mun Anna Ólafsdóttir hafa sungið með þeim félögum. Það voru þeir Árni Björnsson píanóleikari (og tónskáld) og hljómsveitarstjóri, Karl O. Runólfsson fiðluleikari (og tónskáld), Þorvaldur Steingrímsson saxófónleikari (síðar þekktur fiðluleikari) og Jóhannes Eggertsson trommuleikari (síðar þekktur sellóleikari) sem skipuðu sveitina.

Hljómsveit Árna Björnssonar starfaði til 1936 eftir því sem heimildir herma.