Heitar lummur (2005)

Heitar lummur

Sönghópurinn Heitar lummur starfaði árið 2005 en hópurinn innihélt fjóra unga söngvara sem höfðu verið meðal þátttakenda í sjónvarpsþáttunum Idol – stjörnuleit á Stöð 2 sem hafði þá verið haldin frá 2003. Söngvararnir fjórir höfðu fallið úr keppni fremur snemma í keppnunum utan Karl Bjarni Guðmundsson (Kalli Bjarni) sem hafði borið sigur úr býtum í fyrstu keppninni, 2003. Aðrir söngvarar voru þau Alma Rut Kristjánsdóttir, Ardís Ólöf Víkingsdóttir og Helgi Þór Arason.

Heitar lummur komu fyrst fram á sjónarsviðið um sumarið 2005 með því að hópurinn hóf að koma fram og skemmta opinberlega með flutningi á gömlum íslenskum poppslögurum í anda sönghópsins Lummanna sem hafði slegið í gegn á árunum 1977 og 78 með tveimur plötum þar sem þau sungu lög frá sjötta og sjöunda áratugnum, og þaðan kom einnig nafn nýja hópsins – Heitu lummurnar lögðu hins vegar áherslu á áttunda og níunda áratuginn.

Hópurinn skemmti víða við töluverðar vinsældir um sumarið og haustið enda hafði Idolið átt sinn þátt í að gera þau sviðsvön og á sama tíma var slík endurvinnsla á eldri tónlist einnig nokkuð í tísku. Lummurnar fóru svo í hljóðver og um haustið leit plata dagsins ljós, gefin út af Senu og bar nafn söngsveitarinnar. Hún var ellefu laga og fengu söngvararnir eitt lag hver til að spreyta sig á í sólósöng en flest lögin voru samstarfsverkefni, tvö laganna höfðu svo ratað á þrjár safnplötur um sumarið og haustið. Platan hlaut hins vegar dræmar viðtökur og afar neikvæða dóma í Morgunblaðinu og Fréttablaðinu, og þegar jólavertíðinni lauk þar sem Heitar lummur fóru víða um völl og skemmtu, hvarf sönghópurinn af sjónarsviðinu og hætti störfum eftir um sex mánaða keyrslu. Flest hafa þau verið viðloðandi tónlistartengd verkefni síðan.

Efni á plötum