Afmælisbörn 28. janúar 2024

Oddrún Kristófersdóttir

Þrjú afmælisbörn úr tónlistargeiranum eru á skrá Glatkistunnar í dag:

Söngkonan Telma Ágústsdóttir er fjörutíu og sjö ára gömul á þessum degi. Telma varð landsfræg á einu kvöldi þegar hún söng Eurovision framlag Íslendinga Tell me! ásamt Einari Ágústi Víðissyni árið 2000, hún var þá söngkona hljómsveitarinnar Spur en áður hafði hún sungið með hljómsveitinni Hróðmundur hippi. Telma er dóttir Ágústs Atlasonar í Ríó tríó.

Oddrún Kristófersdóttir söngkona átti einnig þennan afmælisdag en hún lést árið 2016. Oddrún sem var fædd 1945 hafði verið nokkuð áberandi á dansstöðum borgarinnar á fyrri hluta sjöunda áratugarins og söng þá með hljómsveitum eins og G.J. tríóinu, Ó.M. kvartettnum og Pónik en hún hafði þá komið fram í kringum 1960 sem ein af ungum og efnilegum söngvurum rokkkynslóðarinnar.

Þá er hér að síðustu nefnd Steinunn Karlsdóttir söngkona og píanóleikari frá Keflavík (fædd 1955) en hún kom fyrst fram á sjónarsviðið sem þjóðlagasöngkona í kringum 1970, síðar átti hún eftir að vekja athygli sem píanóleikari auk söngsins og kom m.a. fram sem einleikari með Sinfóníuhljómsveit Íslands. Steinunn lést árið 1999 eftir veikindi.

Vissir þú að Hljómsveit Önnu Vilhjálms var fyrsta hljómsveitin hér á landi sem kennd var við konu?