Helgi K. Hjálmsson (1929-2020)

Helgi K. Hjálmsson

Helgi K. Hjálmsson viðskiptafræðingur var öllu þekktari fyrir önnur störf sín heldur en þau sem sneru að tónlist en þáttur hans í útgáfu tónlistar á Íslandi er þó nokkur.

Helgi Konráð Hjálmsson fæddist í Vestmannaeyjum árið 1929, hann fluttist upp á meginlandið árið 1934 eftir að faðir hans lést en móðir hans var Sigríður Helgadóttir sem átti svo eftir að starfrækja Hljóðfæraverzlun Sigríðar Helgadóttur við Lækjargötu og síðar Vesturveri (við Ingólfstorg) sem var í senn hljóðfæraverslun og útgáfufyrirtæki en fjölmargar plötur komu út á vegum þess frá árinu 1949.

Helgi nam viðskiptafræði og starfaði við fjölskyldufyrirtækið sem verslunarstjóri og einn eigenda þess og tók svo við því þegar móðir hans lést árið 1954 en fyrirtækið starfaði allt til 1977. Plötuútgáfan skipaði stóran sess í starfsemi fyrirtækisins og kom Helgi að ýmsum hliðartengdum málefnum varðandi hana, hann var t.a.m. einn af stofnendum og í stjórn Félags hljómplötuframleiðenda og síðar í stjórn Sambands flytjenda og hljómplötuframleiðenda. Þess má svo geta að hann var einn af stofnendum tónlistarfélags og svo tónlistarskóla í Garðahreppi (síðar Tónlistarskóla Garðabæjar) og færði nýstofnuðum skólanum töluvert af hljóðfærum og tónlistartengdum búnaði að gjöf fyrir hönd Hljóðfæraverzlunar Sigríðar Helgadóttur.

Helgi virðist hafa hætt öllum afskiptum af útgáfu- og tónlistarmálum en hann varð þekktur sem framkvæmdastjóri Tollvörugeymslunnar (síðar TVG Zimsen) og gegndi ýmsum félags- og trúnaðarstörfum á ýmsum vettvangi, var t.d. formaður félags eldri borgara svo dæmi sé nefnt. Hann var virkur söngvari hin síðari ár í Kirkjukór Garðakirkju og svo Garðakórnum (hinum síðari) sem er kór félags eldri borgara í Garðabæ.

Helgi lést í febrúar árið 2020 rúmlega níræður að aldri.