Hljómsveit André Bachmann (1984-91)

Hljómsveit André Bachmann 1988

Það sem kallað hefur verið Hljómsveit André Bachmann er í raun nokkrar og misstórar hljómsveitir, tríó og dúettar undir stjórn André, margt er reyndar óljóst í sögu þeirra og mega lesendur gjarnan fylla upp í þær eyður eftir því sem þurfa þykir.

Fyrstu heimildir um sveit undir þessu nafni eru frá árinu 1984 en þá starfræktu þeir André Bachmann og Sigurbergur [?] dúett á Mímisbar á Hótel Sögu, og líklega kom Elly Vilhjálms fram eitthvað með þeim félögum en hún hafði þá ekki sungið opinberlega í mörg ár. Ekki liggur fyrir hver hljóðfæraskipan þeirra tveggja var en André er í grunninn trommuleikari, líklega annaðist hann sönginn og hér er giskað á að Sigurbergur hafi leikið á hljómborð fremur en gítar. Þessi útgáfa sveitarinnar starfaði til 1985 en þá kom Kristján Óskarsson hljómborðsleikari inn í stað Sigurbergs og starfaði með André næsta árið og árið 1986 voru það svo Grétar Örvarsson og síðan Guðmundur Þ. Guðmundsson sem störfuðu með honum, báðir að öllum líkindum hljómborðsleikarar en sá síðarnefndi starfaði með honum til 1987. Á þessum árum starfaði sveitin mestmegnis á Mímisbar en mun einnig hafa leikið á Hótel Borg og Staupasteini í Kópavogi veturinn 1987-88, ekki liggur þó fyrir hverjir skipuðu sveitina þá eða hversu margir voru í henni fyrr en um áramótin að um var að ræða tríó sem auk André skipuðu þeir Hörður Friðþjófsson gítarleikari og Grettir Björnsson cordovoxleikari (rafmagnsharmonikka). Sú útgáfa sveitarinnar mun einnig hafa leikið eitthvað erlendis á þorrablótum og tónlistartengdum uppákomum Íslendingafélaga t.d. í Bandaríkjunum og Danmörku. Hannes Jón Hannesson lék einnig eitthvað með hljómsveitinni og þá sem bassaleikari.

Sumarið 1988 var enn um tríó að ræða en þá voru í sveitinni auk André sem lék á trommur og söng, þeir Carl Möller hljómborðsleikari og Gunnar Bernburg bassaleikari, sú útgáfa sveitarinnar lék í Danshúsinu í Glæsibæ og um haustið lék sveitin svo á Mímisbar á Sögu. Árið 1989 lék sveitin m.a. á Vetrarbrautinni í Þórscafe og kom þá Rúnar Georgsson saxófónleikari eitthvað fram með henni en um það leyti lék sveitin einnig inn á sólóplötu André sem kom svo út um haustið undir titlinum Til þín – sveitin fylgdi þeirri plötu nokkuð eftir með spilamennsku.

Framan af ári 1990 virðist lítið fara fyrir Hljómsveit André Bachmann, hún starfaði þó í Danshöllinni um sumarið og þá hafði Úlfar Sigmarsson hljómborðsleikari leyst Carl af hólmi en einnig söng söngkonan Áslaug Fjóla [Magnúsdóttir?] eitthvað með sveitinni, Bjarni Arason kom reyndar einnig fram með þeim félögum. Um haustið hafði fjölgað í hljómsveitinni, Kristinn Sigmarsson gítarleikari og bróðir Úlfars var þá kominn inn í hana sem og Þorleifur Gíslason saxófónleikari en Áslaug Fjóla söng þá einnig með André. Svo virðist sem sveitin hafi þannig skipuð starfað til áramóta en þá tók ný sveit fljótlega við – Gleðigjafarnir, sem starfaði í fjölmörg ár. Ekki er ljóst hvort sú sveit var í byrjun skipuð sama mannskap og Hljómsveit André Bachmann þegar hún hætti störfum.

Efni á plötum