Helvík (1999)

Helvík

Finnsk-íslenski dúettinn Helvík starfaði um nokkurra ára skeið undir lok 20. aldar en kom þó ekki fram opinberlega fyrr en haustið 1999 þegar hann lék á tónleikum í Kaffileikhúsinu en í umfjöllun um tónleikana var tónlist Helvíkur skilgreind sem teknódjass.

Meðlimir dúettsins voru þeir Kristján Eldjárn gítarleikari og Samuli Kosminen slagverksleikari en þeir höfðu kynnst í Finnlandi um miðbik áratugarins þar sem Kristján var við nám, þeir höfðu samið saman eins konar spunatónlist með gítar og slagverki síðan þá en komu fyrst fram opinberlega sem fyrr segir haustið 1999. Á þeim tónleikum kom finnska söng- og leikkonan Ona Kamu fram með þeim félögum en nokkrum vikum síðar þegar Helvík kom aftur fram hafði finnski gítarleikarinn Risto Tulirauta leyst Kristján af hólmi, hugsanlega vegna þess að Kristján var um það leyti að berjast við illvígan sjúkdóm sem síðar dró hann til dauða.