Afmælisbörn 8. febrúar 2024

Valgarður Guðjónsson

Afmælisbörnin eru fimm talsins í dag:

Fyrstan skal nefna Jónatan Garðarsson tónlistarséní sem er sextíu og níu ára gamall en hann hefur verið viðloðandi tónlist í áratugi með einum og öðrum hætti. Hann hefur verið í hljómsveitum, samið lagatexta, skrifað um tónlist, komið að félags- og réttindamálum tónlistarmanna og er það sem almennt er kallað – tónlistarnörd eða poppfræðingur.

Valgarður (Þórir) Guðjónsson söngvari Fræbbblanna er sextíu og fimm ára gamall í dag, hann hefur sungið með fleiri hljómsveitum en flestar eru þær í pönkgeiranum og tengjast Fræbbblunum, þeirra á meðal má nefna Mamma var Rússi, Glott og Fitlarinn á þakinu.

Kolbeinn Jón Ketilsson tenórsöngvari er sextíu og tveggja ára gamall á þessum degi. Kolbeinn nam söng fyrst hér heima en síðan í Vín í Austurríki og hefur sungið ýmis konar óperu- og önnur sönghlutverk á ferli sínum, víðs vegar í Evrópu. Hann býr og starfar í Þýskalandi, syngur reglulega hér heima og hefur sent frá sér eina plötu.

Agnes Löve píanóleikari er áttatíu og tveggja ára í dag. Agnes hefur starfað sem píanóleikari, kórastjórnandi, tónlistarkennari og -skólastjóri auk þess að hafa í gegnum tíðina leikið inn á fjölda platna. Árið 2014 kom út þreföld plata með píanóleik hennar undir titlinum Píanóleikur í 60 ár.

Svala Karítas Björgvinsdóttir (Svala Björgvins) er fjörutíu og sjö ára. Svala varð þekkt aðeins tíu ára þegar hún söng lagið Fyrir jól á jólaplötu föður sín, Björgvins Halldórssonar, síðar var hún í hljómsveitum eins og Magic mushrooms og Scope en hefur undanfarin ár starfað í Bandaríkjunum með hljómsveit sinni, Steed Lord. Svala hefur gefið út sólóplötur og reyndi fyrir sér sem sólóisti vestan hafs um tíma en hún hefur einnig verið ein af dómurum The Voice.

Vissir þú að Bergþóra Árnadóttir, Árni Johnsen og Torfi Ólafsson hafa öll gefið út plötur tileinkaðar ljóðum Steins Steinarr?