Henning Kondrup (1919-91)

Henning Kondrup

Henning Kondrup var hálf íslenskur tenórsöngvari sem oft söng einsöng á tónleikum með kórum á Akureyri.

Henning hét fullu nafni Henning Friðrik Kondrup og fæddist árið 1919 í Danmörku en hann átti íslenska móður og danskan föður, hann flutti með fjölskyldu sinni til Akureyrar barn að aldri og bjó þar síðan alla tíð þar sem hann fékkst við ýmis störf í gegnum tíðina.

Henning hóf líklega rétt fyrir heimsstyrjöldina síðar að syngja með Karlakórnum Geysi á Akureyri og fljótlega var hann farinn að syngja einsöng með þeim kór á tónleikum en hann þótti hafa sérlega bjarta tenór rödd, og hlaut góða dóma fyrir söng sinn. Hann mun hafa átt kost á því að fara erlendis til að nema söng en greip aldrei það tækifæri, og mun hafa séð eftir því síðan. Síðar átti Henning eftir að syngja einnig með Kantötukór Akureyrar og Kirkjukór Akureyrar, og söng jafnframt einsöng með þeim kórum á tónleikum. Hann fór jafnvel með kantötukórnum í söngferð til Svíþjóðar sem og með kór Sambands íslenskra karlakóra um Norðurlöndin. Henning söng einnig einsöng við önnur tækifæri, t.d. á tónleikum þar sem fáeinir einsöngvarar komu við sögu sem og við jarðarfarir og ýmsar tónlistartengdar skemmtanir, hann var að syngja eitthvað fram yfir 1960 en virðist þá hafa hætt einsöng.

Henning Kondrup lést árið 1991 á sjötugasta og öðru aldursári en hann hafði þá átt við heilsubrest að stríða um skeið.