Herdís Matthíasdóttir (1886-1918)

Herdís Matthíasdóttir

Herdís Matthíasdóttir var þekkt snemma á 20. öld en hún var með allra fyrstu konum hérlendis til að læra söng og píanóleik, rétt eins og systir hennar Elín Matthíasdóttir Laxdal. Þær systur hlutu þau örlög að falla fyrir spænsku veikinni haustið 1918 með fárra daga millibili.

Herdís var fædd 1886 en þær systur voru dætur Matthíasar Jochumssonar skálds. Herdís sem var þremur árum yngri en Elín var farin að leika 17 ára gömul opinberlega á harmóníum (fótstigið orgel) á skemmtunum á Akureyri og hugsanlega þá einnig fyrir dansi, heimildir eru einnig fyrir að hún hafi leikið á forte píanó á tónleikum á Akureyri árið 1905 ásamt Poul Bernburg (eldri) sem lék á fiðlu.

Herdís mun hafa farið í nám til Kaupmannahafnar í boði Friðriks VIII Danakonungs en þeir Matthías faðir hennar voru málkunnugir og hafði honum verið boðið að heimsækja kónginn, skáldið átti ekki heimangengt og fór Herdís fyrir hans hans og síðan í söng- og píanónám í boði konungs, ein allra fyrst íslenskra kvenna til að nema þau fræði en Elín systir hennar hafði einnig notið slíks konungsstyrks áður.

Á meðan dvöl Herdísar í Danmörku stóð söng hún m.a. á skemmtun Íslendinga í borginni og þegar heim kom (1911) hélt hún fljótlega tónleika á Seyðisfirði og Akureyri þar sem góður rómur var gerður að söng hennar og píanóleik. Hún flutti suður til Reykjavíkur árið 1912, söng þar í Bárunni (Bárubúð) ásamt fleirum en síðar átti hún jafnvel eftir að syngja á sjálfstæðum tónleikum í Iðnó, og söng reyndar mjög oft opinberlega. Hún hóf brátt að kenna píanóleik og söng og var það líklega hennar aðalstarf, hún kenndi m.a. Jóni Leifs ungum á píanó og Helgu Bjarnadóttur söng en Helga átti síðar eftir að vera þekkt söngkona.

Herdís varð ekki langlíf og þegar spænska veikin gekk yfir haustið 1918 urðu þær systur báðar fyrir barðinu á þeirri skæðu inflúensu og létust úr henni með nokkurra daga millibili, Herdís var þá aðeins þrjátíu og tveggja ára gömul.