Helga Steffensen (1934-)

Helga Steffensen 1961

Helga Steffensen er sjálfsagt þekktust fyrir framlag sitt til barnamenningar en hún hélt utan um starfsemi Brúðubílsins um árabil og fór víða um land með hann til að skemmta yngsta fólkinu ásamt Sigríði Hannesdóttur, Lilla apa, Gústa, Ömmu og fleirum, auk þess að halda utan um Stundina okkur í Ríkissjónvarpinu um skeið.

Helga Steffensen (fædd 1934) er Reykvíkingur í húð og hár og framan af var líklegra að hún yrði píanóleikari en brúðustjórnandi, að loknu verslunarprófi var hún um tíma í námi í Frakklandi og Danmörku en árið 1971 hóf hún að starfa við Leikbrúðuland Jóns E. Guðmundssonar sem var undanfari Brúðubílsins, og árið 1980 tók hún svo við Brúðubílnum og hafði yfirumsjón með honum allt til ársins 2020. Helga samdi efnið að miklu leyti og lengi ásamt Sigríði Hannesdóttur, saumaði brúður og lék og söng fyrir þúsundir barna á því fjörutíu ára skeiði sem hún starfaði við Brúðubílinn, hún var ennfremur sú sem skóp Lilla apa, Úlla úlf og margar aðrar þjóðþekktar brúður. Þá var hún einnig umsjónarmaður Stundarinnar okkar í Ríkisútvarpinu frá haustinu 1987 til vorsins 1994.

Tvær plötur komu út á sínum tíma með Brúðubílnum, Brúðubíllinn (1983) og Brúðubíllinn aftur á ferð (1989) þar sem Helga leikur og syngur en einnig má hér nefna kassettuna Bernskubrek: sögur og söngur (1994) þar sem hún kemur við sögu.

Helga Steffensen hlaut árið 2007 fálkaorðuna fyrir framlag sitt til íslenskrar barnamenningar, og þess má einnig geta að hún var árið 2019 kjörin Reykvíkingur ársins og fékk að launum að opna Elliðaárnar þá um vorið.

Efni á plötum