Hermann Guðmundsson (1916-89)

Hermann Guðmundsson

Hermann Guðmundsson telst vera einn af fyrstu dægurlagasöngvurum þjóðarinnar þótt ekki hafi nafn hans farið hátt í tónlistarsögunni, hann söng reyndar bæði dægurlög og klassík.

Hermann Guðmundsson var fæddur á Patreksfirði 1916 en fluttisti með fjölskyldu sinni tveggja ára gamall suður til Hafnarfjarðar þar sem hann ólst upp en bjó síðar í Reykjavík. Hann þótti efnilegur söngvari og var farinn að syngja í útvarpssal fyrir tvítugt en það mun þó mestmegnis hafa verið einsöngslög við píanóundirleik.

Árið 1934 gekk Hermann til liðs við Karlakór Reykjavíkur og átti hann eftir að syngja með þeim kór í áratugi, m.a. inn á fjölmargar plötur. Hann mun jafnframt oft hafa sungið einsöng með kórnum á tónleikum en einnig söng hann með öðrum kórum s.s. Dómkórnum, Útvarpskórnum og Þjóðkórnum svokallaða.

Hermann varð einnig þekktur einsöngvari, söng oft einsöng á skemmtunum og tónleikum á höfuðborgarsvæðinu en fór einnig eitthvað út á land til þess, sumarið 1936 fór hann t.a.m. ásamt Alfreð Andréssyni leikara og söng á skemmtunum á Siglufirði megnið af sumrinu. Hann söng einnig í óperu-, revíu- og söngleikjauppfærslum sem settar voru á svið, og lék jafnvel eitthvað líka á sviði m.a. í Skugga-Sveini.

Hermann söng heilmikið með danshljómsveitum þess tíma en slíkar hljómsveitir voru þá að koma fram á sjónarsviðið, hér má nefna Danshljómsveit FÍH (Hljómsveit FÍH) og Hljómsveit Bjarna Böðvarssonar en með síðarnefndu sveitinni mun hann hafa sungið oftsinnis í Ríkisútvarpinu við miklar vinsældir landsmanna. Einhverjar upptökur hafa varðveist með söng Hermanns og og er þær að finna á plötu með Hljómsveit Bjarna Bö sem Sigurjón Samúelsson plötusafnari á Hrafnabjörgum útbjó til útgáfu í litlu upplagi.

Hermann söng einsöng á tónleikum eitthvað fram eftir sjötta áratugnum en eftir það mestmegnis með kórum. Hann lést árið 1989.