
Hljómsveit Eddu Levy
Hljómsveit Eddu Levy starfaði um eins árs skeið á árunum 1969 og 70, og kom þá nokkuð víða við á fremur stuttum tíma.
Sveitin var stofnuð síðla árs 1969 og var hún í upphafi skipuð þeim Eddu Stefaníu Levy söngkonu og Guðlaugi Pálssyni trommuleikara (sem áður höfðu starfað saman í hljómsveitinni Astró), Óskari Kristjánssyni bassaleikara, Gunnlaugi Melsteð gítarleikara og Guðmundi [?] hljómborðsleikara. Þegar Gunnlaugur gítarleikari hætti (til að ganga til liðs við hljómsveitina Hauka) tók Jón Skaptason sæti hans í sveitinni.
Hljómsveit Eddu starfaði mikið suður á Keflavíkurflugvelli hjá bandaríska varnarliðinu á stöðum eins og Club 56, C.P.O. og Officer club, og var þá einnig ýmist kölluð Edda Levy Quintet eða Edda Levy Band en einnig lék sveitin nokkuð á skemmtistöðum höfuðborgarinnar eins og í Þórscafé, Glaumbæ og Klúbbnum við Laugarteig (síðar Borgartúni). Þá lék hljómsveitin einnig nokkuð úti á landi s.s. í Vestmannaeyjum.
Hljómsveit Eddu Levy starfaði fram í nóvember árið 1970.














































