Hljómsveit Einars Halldórssonar (1956-71)

Hljómsveit Einars Halldórssonar var starfrækt í kringum 1960 og lék víða á dansleikjum á Snæfellsnesinu, og oft á héraðsmótum í félagsheimilinu Breiðabliki í Stykkishólmi, sveitin var einnig stundum kölluð Einar í Dal og félagar.

Einar Halldórsson var harmonikku- og píanóleikari frá Dal í Miklaholtshreppi og hann starfrækti sveitina ásamt bróður sínum, Erlendi Halldórssyni trommuleikara en einnig var Ólafur Steinþórsson saxófónleikari í henni, stundum voru þeir fjórir eða jafnvel fimm. Einar starfrækti fleiri sveitir um ævina og hugsanlega hefur hljómsveitin einnig gengið undir nafninu Dalbræður eða Stjörnukvartettinn sem voru sveitir sem hann starfaði með.

Heimildir eru um að sveitin hafi verið starfandi allt frá 1956 og til 1971 en það gæti ennfremur átt við um aðrar sveitir hans.