
Héraðsvísnavinir 1998
Héraðsvísnavinir var félag áhugafólks á Fljótsdalshéraði um tónlist og kveðskap en félagið mun hafa starfað í nokkur ár undir lok 20. aldar, frá 1986 (ein heimild segir félagið stofnað 1989) til 1998.
Tilgangur og markmið félagsins var að haldi á lofti söng og kveðskap, og hittust félagsmenn reglulega í því skyni en einnig voru haldnir tónleikar og skemmtikvöld þar sem þessi tvö atriði voru í heiðri höfð, segja má að starfsemi Héraðsvísnavina hafi verið með svipuðum hætti og Vísnavina á höfuðborgarsvæðinu nema að Héraðsbúar bættu við kveðskapnum og því voru hagyrðingakvöld einnig haldin. Söng- og tónlistarhópar munu hafa verið starfræktir innan Héraðsvísnavina og skemmtu þeir á uppákomum félagsins en einnig komu stundum gestir „að sunnan“ (stundum tengdir Vísnavinum) og jafnvel erlendis frá. Og sem dæmi um starf félagsins í heimabyggð hélt það utan um dagskrá með efni hagyrðingsins Hákonar Aðalsteinssonar en farið var með þá dagskrá víða um land. Héraðsvísnavinir virðast ekki hafa átt sér fastan samastað heldur hist hér og þar um Hérað, og eins voru tónleikar og aðrar skemmtanir haldnar víðs vegar í sýslunni.
Upplýsingar um Héraðsvísnavini eru takmarkaðar og hvergi er að finna heimildir um t.d. fjölda meðlima félagsins eða fasta liði í starfseminni. Félagið virðist hafa verið nokkuð virkt fyrstu árin en um 1995 lagðist starfsemin niður, tilraunir voru gerðar til að koma því aftur af stað árið 1998 en það virðast einungis hafa verið andaslitur félagsins.














































