
Best fyrir
Norðlenska hljómsveitin Best fyrir hefur starfað með hléum síðan 1995 og virðist þrátt fyrir að hafa hætt störfum í nokkur skipti, eiga sér endalaus framhaldslíf.
Best fyrir var stofnuð á Akureyri snemma vors 1995 en þá stóð yfir sex vikna kennaraverkfall. Fyrst um sinn gekk sveitin reyndar undir nafninu Getuleysi og síðan Vonleysi áður en hún hlaut endanlegt nafn sitt – Best fyrir, þegar meðlimir hennar ákváðu að gera út á ballmarkaðinn.
Upphaflegir meðlimir sveitarinnar voru þeir Brynjar Davíðsson söngvari og trommuleikari, Elmar Sindri Eiríksson bassaleikari og Kristján Kristjánsson söngvari og gítarleikari en þegar Best fyrir nafnið var tekið upp höfðu Kristján Elí Örnólfsson gítarleikari, Elmar Steindórsson trommuleikari og Jens Ólafsson söngvari og gítarleikari bæst í hópinn.

Best fyrir
Sveitin keppti í Músíktilraunum vorið 1996 með svolítið sérstaka liðsskipan enda voru þeir Elmar Sindri bassaleikari og Brynjar trommuleikari þá erlendis í æfingaferð með knattspyrnuliði Þórs, sveitin fór því sem tríó – Elmar Steindórsson trommaði, Kristján Örnólfsson lék á gítar og söng sem og Jens sem lék á bassa í stað Elmars Sindra, þeir félagar komust ekki áfram í úrslit keppninnar. Best fyrir hljóðritaði nokkur frumsamin lög og starfaði þannig skipuð fram að áramótum 1996-97 en fóru meðlimir hennar í sína hverja áttina og sveitin hætti störfum – í fyrsta sinn.
Árið 2002 kom að því að Best fyrir kom saman á nýjan leik eftir nokkurt hlé, forsagan var líkast til sú að Brynjar söngvari sendi þá frá sér fjögurra laga smáskífuna Magnaðir Magnamenn þar sem hann flutti m.a. samnefndan baráttusöng knattspyrnufélagsins Magna á Grenivík en Brynjar var þá markvörður liðsins. Hann fékk til liðs við sig Elmar bassaleikara og Atla Má Rúnarsson sem lék á flest annað á skífunni sem kom út í nafni Best, en þeir Elmar og Atli Már voru reyndar einnig viðloðandi knattspyrnustarfið fyrir norðan. Þar með var Best fyrir endurreist og starfaði í kjölfarið um nokkurt skeið.

Best fyrir 2002
Sveitin lék m.a. á Einni með öllu á Akureyri um verslunarmannahelgina og um veturinn var plata hljóðrituð í nafni sveitarinnar. Platan kom svo út vorið 2003 undir titlinum Lífið er aðeins… … þessar stundir, skipuð þeim félögum en þeir höfðu sér til fulltingis Brynjólf Brynjólfsson gítarleikara (Helgi og hljóðfæraleikararnir o.fl.) á plötunni. Skífan hlaut prýðilega dóma í Morgunblaðinu en henni var lítt sem ekkert fylgt eftir með spilamennsku og sveitin hætti því aftur fljótlega störfum.
Enn var Best fyrir endurreist árið 2008 og enn skipuðu þeir Brynjar söngvari og Elmar bassaleikari kjarna sveitarinnar, aðrir meðlimir hennar voru að þessu sinni Bergþór Rúnar Friðriksson kassagítarleikari, Sverrir Freyr Þorleifsson trommuleikari og Guðmundur Aðalsteinn Pálmason gítarleikari.
Og þegar þeir félagar hófu upptökur á nýrri skífu um sumarið fengu þeir einnig til liðs við sig harmonikkuleikarann Hans Friðrik Hilaríus Guðmundsson Skranefjell. Skífan sem var tólf laga kom svo út árið 2009 undir titlinum Á augnabliki… lokar þú augunum, og á henni var að finna fjölda gesta, bæði söngvara og hljóðfæraleikara – sumir söngvararnir eru reyndar allþekktir og hér má nefna Eyþór Inga Gunnlaugsson, Matthías Matthíasson, Rúnar Þór Pétursson og síðast en ekki síst Rúnar Júlíusson en hann söng lagið Ég þrái að lifa sem reyndist vera síðasta lagið sem hann söng en hann lést nokkru síðar. Platan fékk mun slakari dóma í Morgunblaðinu en fyrri platan en útgáfu hennar var lítið fylgt eftir með tónleikahaldi og hætti sveitin enn störfum fljótlega eftir útgáfu hennar.

Best fyrir 2024
Best fyrir hefur síðan 2009 komið saman stöku sinnum en það var ekki fyrr en árið 2024 sem sveitin fór almennilega á stjá á ný, sveitin var þá skipuð þeim Brynjari söngvara, Elmari bassaleikara, Bergþóri gítarleikara og Pétri Guðjónssyni sem hafði tekið við hlutverki trommuleikara. Sveitin sendi frá sér tvær smáskífur á tónlistarveitum, Einn um nótt og Háflug árið 2024 en einnig hafa þeir félagar gert myndband við síðarnefnda lagið, sem aðgengilegt er á Youtube.
Hljómsveitin er þegar þetta er ritað starfandi.














































