Afmælisbörn 30. mars 2024

Tony Cook

Afmælisbörnin í dag eru sex talsins:

Páll Torfi Önundarson læknir og tónlistarmaður er sextíu og níu ára í dag. Hann varð þekktur sem gítarleikari í Diabolus in musica á áttunda áratugnum en hefur einnig leikið í sveitum eins og Grasrexi, Combói Jóhönnu Þórhalls, Six pack lation, Saltfisksveit Villa Valla og Síríusi. Páll Torfi er einnig tónskáld og hefur gefið út tvær plötur með tónlist eftir sig, margir muna líka eftir lagi hans Ferrari, sem Ragnheiður Gröndal flutti í Eurovision fyrir nokkrum árum.

Jóhann Ásmundsson bassaleikari er sextíu og þriggja ára gamall í dag. Jóhann hefur starfað með fusion-sveitinni Mezzoforte en hann hefur einnig leikið með sveitum eins og Model, Action, Akureyrar-útlögunum, Íslandssögum, Alvörunni, DP tribute, Dúndrinu, Gildrumezz og Wumblmbid. Hann hefur gefið út eina sólóplötu og vinnur einnig við hljóðupptökur.

Tony Cook sem lengi starfaði hér á landi sem upptöku- og hljóðvinnslumaður fagnar sjötugs afmæli í dag. Tony kom hingað til Íslands 1975 og bjó hér og starfaði í mörg ár í Hljóðrita í Hafnarfirði við góðan orðstír, hann tók upp ógrynni þekktra platna á þessu tímabili sem margar hverjar urðu meðal söluhæstu og vinsælustu platna í íslenskri tónlistarsögu.

Þá á Johnny King sjötíu og tveggja ára afmæli, hann heitir réttu nafni Jón Víkingsson og hefur komið víða við íslenska kántrítónlistarheiminum. Hann var m.a. í dúettunum Kúrekum norðursins sem hefur gefið út nokkrar plötur, og Útlögum/Outlaws en einnig í kántríhljómsveitunum Daltón bræðrum og Fortíðardraugunum. Johnny King á ennfremur að baki eina sólóplötu.

Einnig hefði Ögmundur Eyþór Svavarsson átt afmæli á þessum degi en hann lést 1999. Ögmundur (f. 1928) var mjólkurfræðingur á Sauðárkróki, samdi tónlist, stýrði lúðrasveitum og karlakórum á Króknum auk þess að leika á píanó með Hljómsveit Hauks Þorsteinssonar og H.G. kvintettnum. Ögmundur samdi tónlist og gaf fjölskylda hans út plötuna Munið í glensi og glaumi, í minningu hans en hann lést sem fyrr segir 1999.

Að síðustu er hér nefndur tónlistarmaðurinn Steingrímur Stefánsson frá Akureyri (1946-2002) sem þrátt fyrir mikla sjónskerðingu lék með nokkrum fjölda hljómsveita hér á árum áður, einkum með bróður sínum Pálma Stefánssyni. Hér má nefna hljómveitir eins og Póló (og Bjarka), Hljómsveit Pálma Stefánssonar, Fjóra félaga og Tríó Birgis Marinóssonar en einnig starfrækti Steingrímur sveit í eigin nafni. Steingrímur lék bæði á trommur og harmonikku í þessum sveitum og kom við sögu á nokkrum plötum.

Vissir þú að KK og Jón Ólafsson sáu um tónlistina í leikritinu Hið ljúfa líf árið 1997?