Hjónabandið [5] (1996-)

Hjónabandið

Hljómsveitin Hjónabandið í Rangárþingi eystra er líklega þekktust þeirra sveita sem starfað hafa undir þessu nafni en sveitin á sér sögu allt frá árinu 1995 og er líklega enn starfandi að nafninu til þótt ekki sé víst að hún hafi komið fram opinberlega á allra síðustu árum.

Stofnun Hjónabandsins má rekja til ársins 1995 þegar þrenn hjón á Hvolsvelli og í Fljótshlíð í Rangárvallasýslu hófu að koma fram á skemmtunum á vegum Samkórs Rangæinga en þau voru líklega öll meðlimir kórsins, hópurinn hlaut þó ekki nafn fyrr en ári síðar (1996) þegar þau tóku upp heitið Hjónabandið. Sveitin var í upphafi skipuð þeim Jóni Ólafssyni söngvara, gítar- og bassaleikara, Ingibjörgu Elfu Sigurðardóttur söngkonu, Jens Sigurðssyni söngvara og gítarleikara, Auði Friðgerði Halldórsdóttur söngkonu og harmonikkuleikara, Hákoni [?] og Halldóru [?] en þau tvö síðast töldu heltust fljótlega úr lestinni og í framhaldinu starfaði Hjónabandið sem kvartett.

Fremur lítið fór fyrir Hjónabandinu framan af, sveitin lék mestmegnis á Cafe Langbrók í Fljótshlíðinni þar sem Jón og Ingibjörg bjuggu og störfuðu en síðar hófu þau að skemmta og leika fyrir dansi víðar um Suðurland s.s. á þorrablótum, sjómannadagsdansleikjum og almennum dansleikjum, og jafnvel á stærri uppákomum eins og Landsmóti hestamanna sem haldið var á Hellu sumarið 2004, einnig lék sveitin á höfuðborgarsvæðinu og víðar.

Hjónabandið 2006 ásamt Kristínu Önnu

Hjónabandið hafði haft frumsamið efni á prógrammi sínu og sumarið 2006 sendi sveitin frá sér sína fyrstu plötu, Diskur ársins en þar var á ferð tólf laga skífa með frumsömdum lögum þar sem hvert lag hæfði hverjum mánuði ársins. Platan hlaut kannski ekki mikla athygli en seldist vel á heimaslóðum og varð Hjónabandinu hvatning til frekari verka í þeim efnum.

Sveitin var byrjuð að vinna næstu plötu þegar Jón veiktist en þau veikindi áttu eftir að leggja hann að velli sumarið 2008. Þetta áfall var litlu samfélagi í sveitinni eðlilega mikill harmdauði en Ingibjörg, Jens og Auður héldu samstarfinu áfram, kláruðu plötuna og gáfu hana út með viðeigandi titli – Í minningu Jóns, árið 2009. Platan var tólf laga rétt eins og sú fyrri og hafði Jón samið helming þeirra, og reyndar sungið eitt laganna og leikið á bassa áður en hann lést en Ómar Smári Jónsson sonur þeirra Ingibjargar lék á bassa í öðrum lögum plötunnar.

Hjónabandið starfaði áfram sem tríó en Ómar Smári og Kristín Anna Jensdóttir hafa oft komið fram með þeim án þess þó að vera fastir meðlimir sveitarinnar, Ómar sem bassaleikari og Kristín sem söngkona en hún er dóttir Jens og Auðar. Þriðja plata sveitarinnar leit dagsins ljós sumarið 2015 og bar hún nafnið Dagurinn í dag en sveitin starfaði líklega allt til 2017 eða 18 eftir því sem best verður séð – hún gæti þó enn verið starfandi þó ekki hafi farið eins mikið fyrir henni og áður.

Efni á plötum