Hljómsveit Gísla Brynjólfssonar (1956-58)

Afar takmarkaðar upplýsingar er að finna um Hljómsveit Gísla Brynjólfssonar, og hugsanlegt er að einhver ruglingur í heimildum sé við hljómsveit nafna hans Gísla Bryngeirssonar en báðar störfuðu sveitirnar í Vestmannaeyjum, hljómsveit Gísla Bryngeirssonar þó aðeins fyrr.

Fyrir liggur að hljómsveit Gísla var starfandi árið 1956 og 58 en óvíst er hvort það hafi verið samfleytt enda er vitað að hann starfaði á svipuðum tíma með öðrum hljómsveitum í Eyjum – líklegast er því að hann hafi sett saman hljómsveit fyrir ákveðin og tímabundin verkefni.

Gísli lék bæði á gítar og harmonikku en hugsanlega hefur nikkan verið hljóðfæri hans í þessari hljómsveit því hún mun hafa sérhæft sig í gömlu dönsunum. Engar upplýsingar er að finna um aðra meðlimi sveitarinnar nema að Einar Guðnason var trommuleikari hennar árið 1958.

Frekari upplýsingar óskast því um Hljómsveit Gísla Brynjólfssonar.