Hljómsveit Gunnars Kristjánssonar (1942-44)

Lítið liggur fyrir um Hljómsveit Gunnars Kristjánssonar harmonikkuleikara en svo virðist sem hann hafi starfrækt hljómsveit sína á árunum 1942 til 44.

Hljómsveit Gunnars starfaði í Reykjavík og lék nokkuð á dansleikjum í samkomuhúsum bæjarins, hún virðist jafnvel hafa verið um tíma eins konar húshljómsveit í Góðtemplarahúsinu (Gúttó við Tjörnina) og það var líklega með þessari sveit sem Haukur Morthens söng í fyrsta sinn opinberlega á dansleik. Tildrög þess voru þau að Alþýðuprentsmiðjan (þar sem Haukur starfaði) hélt samkomu í Gúttó þar sem hljómsveitin lék, og tvær stúlkur skoruðu á hann að taka lagið með sveitinni sem hann tók ekki í mál nema að einhver annar stæði á sviðinu með honum. Það varð því úr að Alfreð Clausen söngvari tók lagið með honum við undirleik sveitarinnar, sem var þá um leið frumraun Hauks á einsöngsviðinu þótt vissulega hefði hann áður sungið með kórum.

Ekki liggur fyrir hvort Alfreð var söngvari hljómsveitar Gunnars en engar upplýsingar er að finna um aðra meðlimi eða hljóðfæraskipan þessarar sveitar aðrar en að hún var sextett haustið 1944, og er því hér með óskað eftir frekari upplýsingum um sveitina. Hljómsveit Gunnars mun einnig hafa leikið nokkuð á Snæfellsnesi en Gunnar átti einmitt rætur sínar að rekja til Grundarfjarðar og Kolgrafarfjarðar.

Gunnar starfrækti aftur hljómsveit á sjötta áratugnum en sú sveit gekk undir nafninu G.K. tríó.