Yfir 400 söngtextar bætast við Glatkistuna

Á fimmta hundrað sönglagatextar hafa nú bæst í textasafn Glatkistunnar en textasafnið á vefsíðunni spannar nú um þrjú þúsund slíka, þeirra á meðal má finna allt frá algengustu partíslögurum til sjaldheyrðra texta sem hvergi annars staðar er að finna á víðáttum Internetsins.

Í þessum nýja skammti kennir ýmissa grasa og hér er helst að nefna að söngtextar Jónasar Árnasonar eru nú flestir ef ekki allir komnir inn á síðuna sem og textar sem Friðjón Jóhannsson og félagar hafa gefið út með alþýðutónlist frá Austfjörðum, þá hafa flestir af textum Gunnars L. Hjálmarssonar bæst í hópinn og þar er að finna texta bæði af barnaplötum hans sem og af sólóplötum og með S.h. draumi. Jafnframt má nefna texta með Unu Torfa, Írafári, Súkkat, Súellen o.m.fl. Þá er ógetið að textar þjóðhátíðarlaga Vestmannaeyinga (þeirra sem upplýsingar eru til um) eru komnir á vefsíðuna – alls 83 textar, og er sér flokkur tileinkaður þeim í textasafninu.

Fleiri textar bíða næsta skammts og það tónlistarfólk sem væri til í að fá texta sína birta á síðunni getur sent þá á póstfangið glatkistan@glatkistan.com – ekki liggur þó alveg fyrir hvenær næsta slíka holskefla texta bætist við Glatkistuna.