Glatkistan hlýtur styrk úr Tónlistarsjóði

Glatkistan var eitt af þeim verkefnum sem hlaut styrk þegar úthlutað var í fyrsta sinn úr öllum deildum nýs Tónlistarsjóðs en sjóðurinn er nýstofnaður á grundvelli tónlistarlaga sem sett voru í maí 2023, auglýst var eftir umsóknum í sjóðinn í byrjun apríl með umsóknarfrest þann 21. maí sl.

Hlutverk sjóðsins er m.a. að efla íslenska tónlist, hljóðritagerð og þróunarstarf í íslenskum tónlistariðnaði með fjárhagslegum stuðningi. Sjóðurinn skal einnig stuðla að kynningu á íslensku tónlistarfólki og tónsköpun þeirra hér á landi sem erlendis.

Tónlistarsjóður skiptist í fjórar deildir sem hafa ólíkar áherslur og er ætlað að útvíkka úthlutanir til verkefna sem styrkja tónlistargeirann á sem breiðustum grunni en alls bárust 364 umsóknir og var heildarupphæð styrkumsókna um 631 milljónir króna. Úthlutað var til 111 verkefna ríflega 97 milljónum króna og hlaut Glatkistan kr. 500.000 verkefnastyrk að þessu sinni. Í niðurstöðu nefndar um Glatkistuna segir m.a.; „Mikilvæg og metnaðarfull starfsemi“.

Glatkistan þakkar Tónlistarsjóði fyrir styrkveitinguna.