Hljómplötuútgáfan [útgáfufyrirtæki / umboðsskrifstofa] (1967-81)

Merki Hljómplötuútgáfunnar

Hljómplötuútgáfan var umsvifamikið útgáfufyrirtæki á sínum tíma en sögu þess má skipta í tvennt eftir eigendum.

Hljómplötuútgáfan sf. hafði verið stofnuð árið 1967 og voru þrír ungir menn þá starfandi hjá Ríkissjónvarpinu upphafsmenn þess – þeir Andrés Indriðason, Hinrik Bjarnason og Jón Þór Hannesson voru þar á ferð en sá síðast taldi mun hafa staldrað stutt við. Fyrsta útgáfa fyrirtækisins var reyndar tengt Ríkissjónvarpinu en þar var um að ræða tveggja laga plötu þeirra Rannveigar og Krumma sem allir krakkar þekktu úr Stundinni okkar en Hljómplötuútgáfan var beinlínis stofnuð utan um útgáfu þeirrar plötu. Rannveig og Krummi seldust vel og það gerðu einnig smáskífur með Ríó tríói og Sigrúnu Harðar sem komu út í kjölfarið, og svo kom út breiðskífa með Stúlknakór Gagnfræðaskólans á Selfossi sem er fyrir löngu orðin sígild.

Þrátt fyrir ágætt gengi komu ekki fleiri plötur út á vegum útgáfufyrirtækisins en nokkrum árum síðar (líklega haustið 1975) keyptu Jón Ólafsson og Magnús Kjartansson Hljómplötuútgáfuna en Jón var um það leyti að koma inn í rekstur útgáfufélagsins Júdasar sem gaf út plötur samnefndrar hljómsveitar. Hljómplötuútgáfan var sameinuð Júdasi og gekk um tíma undir nafninu Hljómplötuútgáfan Júdas eða þar til að meðlimir hljómsveitarinnar (allir nema Magnús) sem höfðu verið aðilar að útgáfufyrirtækinu yfirgáfu það árið 1977 en þá var Júdasar-hlutanum kippt út og gekk eftir það undir nafninu Hljómplötuútgáfan rétt eins og það hafði gert í upphafi hjá starfsmönnum Sjónvarpsins. Útgáfunúmer Hljómplötuútgáfunnar höfðu þó áfram JUD-merkinguna þrátt fyrir nafnabreytinguna. Um það leyti kom Vilhjálmur Vilhjálmsson inn í fyrirtækið svo þeir Jón, Magnús og Vilhjálmur voru eigendur þess en Vilhjálmur lést árið 1978 eins og kunnugt er. Þeir félagar voru jafnframt ásamt fleiri aðilum eigendur að upptökuverinu Hljóðrita í Hafnarfirði, haustið 1980 stofnsettu þeir svo plötupressuna Alfa í félagi við enn aðra.

Hljómplötuútgáfan var fyrst og fremst útgáfufyrirtæki og fyrsta platan sem gefin var út undir merkjum þess eftir að Júdasar-liðarnir voru farnir úr því var breiðskífan Hana nú með Vilhjálmi Vilhjálmssyni sumarið 1977, í kjölfarið komu út plötur með Halla og Ladda, Ruth Reginalds, Brunaliðinu, Mannakornum, Spilverki þjóðanna, Glámi og Skrámi, Björgvini Halldórssyni og Brimkló á næstu árum svo nokkur dæmi séu nefnd (alls þrjátíu og tvær breiðskífur og nokkrar smáskífur).

Ekki gekk alltaf vel hjá Hljómplötuútgáfunni og haustið 1977 stóð jafnvel til að leggja útgáfuna niður, mikil plötusala fyrir jólin bjargaði þó málunum og fljótlega eftir áramótin var hljómsveitin Brunaliðið beinlínis stofnað fyrir tilstilli útgáfunnar og sendi frá sér plötuna Úr öskunni í eldinn sem m.a. hafði að geyma stærsta sumarsmell Íslandssögunnar – Ég er á leiðinni, og platan varð svo söluhæsta plata ársins 1978 á Íslandi og bjargaði þar með fyrirtækinu.

Hljómplötuútgáfan kom að öðrum margvíslegum verkefnum, dreifði m.a. plötum fyrir aðra og svo annaðist fyrirtækið umboðsmennsku fyrir t.d. Brunaliðið og hljómsveitina Friðryk. Þeir félagar gerðu einnig út á útrás íslenskrar tónlistar með heimsóknum á Midem-ráðstefnuna í Frakklandi og svo má nefna að Björgvin Halldórsson tók þátt í írskri söngvakeppni undir merkjum útgáfunnar. Þá stóð Hljómplötuútgáfan jafnframt fyrir tónleikahaldi og öðrum skemmtunum, og í því samhengi má nefna árlega jólatónleika með tónlistarfólki og hljómsveitum á vegum fyrirtækisins. Fyrirtækið var því umsvifamikið á tónlistarmarkaðnum og um tíma þótti það jafnvel fá of mikla athygli í Ríkisútvarpinu og Sjónvarpinu, því var reyndar einnig á hinn veginn farið því þegar Jóni Ólafssyni fannst íslensk tónlist fara halloka fyrir þeirri erlendu hjá Ríkisútvarpinu (10%) sótti hann um útvarpsrekstrarleyfi en fékk reyndar ekki þar sem ríkið hafði einkarétt á slíkum rekstri. Það átti þó eftir að breytast fáeinum árum síðar.

Sögu Hljómplötuútgáfunnar lauk árið 1981 en plata Brimklóar – Glímt við þjóðveginn sem kom út um sumarið varð síðasta plata útgáfunnar. Um það leyti höfðu félagar Jóns gert athugasemdir við bókhald fyrirtækisins (sem fannst reyndar ekkert athugavert við) og samstarfinu var því sjálflokið, Jón hafði þá rekið hljómplötuverslanir um tíma undir merkjum Skífunnar og litlu síðar hóf hann að gefa út plötur undir því merki, sem segja mætti að sé sjálfstætt framhald Hljómplötuútgáfunnar.