Afmælisbörn 21. júlí 2024

Jón Rafn

Í dag eru afmælisbörn íslensks tónlistarlífs fimm talsins samkvæmt skrá Glatkistunnar:

Steinar Berg (Ísleifsson) er sjötíu og tveggja ára í dag. Steinar var lengstum hljómplötuútgefandi, starfrækti Steina í áratugi og síðar Steinsnar. Hann hefur einnig verið virkur tónlistarmaður hin síðari ár, leikið á gítar og sungið með hljómsveitum eins og Fírunum og Grasösnum, sem hefur gefið út tvær plötur, en hann var einnig í Liðssveitinni sem átti efni á safnplötunni Í kreppu, um miðjan áttunda áratug síðustu aldar.

Þorvaldur H. Gröndal er fimmtíu og tveggja ára gamall á þessum degi. Kanada, Orgelkvartettinn Apparat, Trabant (Traktor), Kvartett Ó. Jónsson & Grjóni, Call him mr. Kid, The Funerals, Púff og Motion boys eru meðal sveita sem hann hefur leikið með, ýmis á trommur, hljómborð eða bassa.

Tónlistarmaðurinn Jón Rafn (Bjarnason) er sextíu og þriggja ára í dag. Hann gaf út sólóplötuna Lög fyrir þig 1989 en hafði nokkrum árum fyrr gefið út smáskífu. Hann lék með fjölmörgum hljómsveitum á yngri árum í Hafnarfirði, síðar starfaði hann undir nafninu John Raven á tónlistarsviðinu.

Guðmar Ragnarsson, oft kenndur við Meiri-Tungu er áttatíu og þriggja ára gamall á þessum degi. Guðmar lék á saxófón, harmonikku og hljómborð með fjölmörgum sunnlenskum danshljómsveitum hér áður fyrr svo sem Safír sextett, Glitbrá, Skuggum, Caprí kvintett og Þrívídd svo nokkrar séu hér nefndar.

Yngst afmælisbarna dagsins er Bryndís Jakobsdóttir (Dísa Jakobs) en hún er þrjátíu og sjö ára gömul í dag. Dísa hefur stundum verið nefnd sem eina hreinræktaða Stuðmannabarnið en hún er dóttir Jakobs Frímanns og Röggu Gísla. Sólóplata Dísu samnefnd henni kom út 2008 og varð til upp úr samstarfi hennar og Moses Hightower, en hún hefur einnig gefið út plötu í samstarfi við Mads Mouritz.

Vissir þú að Hljómlistin sem kom út 1912 og 13 var fyrsta tónlistartímaritið á Íslandi?