Fjölmargar húshljómsveitir léku á dansleikjum og skemmtunum Hótel Bjarnarins í Hafnarfirði á fjórða og fimmta áratug síðustu aldar en upplýsingar um þær sveitir eru undantekningalítið afar takmarkaðar.
Þegar Hótel Björninn opnaði vorið 1931 lék tríó bæði síðdegis og á kvöldin en þegar nær dró hausti virðist sem sveitin hafi eingöngu leikið á kvöldin og hugsanlega í framhaldinu einungis leikið fyrir dansi á dansleikjum hótelsins að kvöldlagi.
Dansleikir voru tíðir á Birninum og hljómsveitirnar afar mismunandi að stærð og liðsskipan af því er virðist en þær voru sjaldnast kenndar við hljómsveitastjóra sína heldur sjálft hótelið. Margar þessara sveita voru skipaðar erlendum hljóðfæraleikurum eins og þá var títt, þannig lék dönsk hljómsveit (líklega tríó) á hótelinu framan af árinu 1934 en um haustið stjórnaði Ungverjinn Vincent Farkas hljómsveit þar – Farkas þessi lék um svipað leyti á fiðlu í ungverskri strengjasveit Dr. Zakál á Hótel Borg en virðist hafa leikið á saxófón og klarinettu í hljómsveit sinni á Birninum.
Hljómsveit Farkas starfaði líklega fram á vorið 1935 á hótelinu en um haustið var Aage Lorange með sveit þar, um svipað leyti virðist sem „utanaðkomandi“ sveit hafi í fyrsta sinn leikið þar en það var Adlon bandið sem kennt var við samnefndan skemmtiklúbb, í kjölfarið áttu sveitir eins og Swingbandið, Blástakkatríóið og Blue boys eftir að leika þar fyrir dansi næstu árin.
Eftir 1936 voru hljómsveitir Hótel Bjarnarins ýmist tríó, kvartettar eða kvintettar og fyrir kom jafnvel að tvær sveitir léku sama kvöldið fyrir dansi en staðurinn naut greinilega töluverðra vinsælda og aðsóknar á þessum árum, á stríðsárunum var auglýst sérstaklega að dansleikir á hótelinu væru einvörðungu ætlaðir Íslendingum en þannig var það reyndar víðar.
Hljómsveitir hótelsins léku þar allt til ársins 1944 en engar upplýsingar er að finna um liðsskipan þeirra eða hljóðfæraskipan, reikna má þó með því að Íslendingar hafi að mestu skipað þær sveitir síðustu árin, upplýsingar eru um að tvær ungar söngkonur hafi komið fram með hótelhljómsveitinni árið 1944 en þær voru María Þorvaldsdóttir og Unnur Ágústsdóttir. Um það leyti var hljómsveit staðarins auglýst undir þeim formerkjum að hún væri sú eina hérlendis sem léki ekta boogie woogie tónlist.
Hótelið lokaði sumarið 1945 en opnaði aftur skömmu síðar undir nafninu Hótel Þröstur.














































