Hljómsveit Illuga (1978-2001)

Hljómsveit Illuga

Hljómsveit Illuga Þórarinssonar á Húsavík er með langlífari ballhljómsveitum Þingeyinga en sveitin starfaði í um tuttugu og þrjú ár, reyndar gæti hún hafa verið starfandi enn lengur – það sérstæðasta við þessa sveit er þó að hún starfaði í áratug eftir andlát hljómsveitarstjórans.

Hljómsveit Illuga mun hafa verið stofnuð haustið 1978 en stofnmeðlimir hennar voru hljómsveitarstjórinn Illugi Þórarinsson frá Hamraborg í Reykjadal og synir hans tveir, Þórarinn Illugason bassaleikari og Sigurður Illugason söngvari og gítarleikari, sjálfur lék Illugi á harmonikku. Annar kunnur þingeyskur harmonikkuleikari Aðalsteinn Ísfjörð lék með sveitinni í upphafi. Árið 1980 bættist Guðmundur Ágúst Jónsson frændi þeirra feðga í hópinn en hann lék á trommur, fram að því hafði sveitin notast við trommuheila.

Þeir félagar léku mestmegnis á heimaslóðum í Suður-Þingeyjarsýslu en fóru reyndar miklu víðar um norðanvert landið, allt frá Miðfirði og austur á Þórshöfn og léku á þorrablótum, árshátíðum, gömludansaböllum og viðlíka samkomum, þeir stíluðu þar af leiðandi meira inn á vetrarvertíðina en höfðu fremur hægt um sig á sumrin þegar sveitaballavertíð „skemmtikraftanna að sunnan“ stóð sem hæst.

Hljómsveit Illuga árið 1998

Stofnandi og hljómsveitarstjóri sveitarinnar Illugi Þórarinsson lést haustið 1991 en aðrir meðlimir sveitarinnar voru staðráðnir í að halda samstarfinu áfram og það í nafni Illuga, Knútur Jónasson harmonikku- og hljómborðsleikari kom í hans stað og starfaði sveitin áfram í heilan áratug eftir það.

Þó hér hafi verið stiklað á stóru um meðlima- og hljóðfæraskipan Hljómsveitar Illuga þá vantar hér enn nöfn sveitarmeðlima sem stöldruðu um lengri og skemmri tíma í sveitinni þótt ekki sé ljóst nákvæmlega hvenær, þannig mun Sigurður Friðriksson t.a.m. hafa starfað með sveitinni í um átta ár, og Þórarinn Jónsson trommuleikari í tvö ár (líklega á árunum 1989-91). Aðrir meðlimir sveitarinnar voru Hafliði Jósteinsson, Bragi Ingólfsson og Leifur Baldursson en frekari upplýsingar óskast um veru þeirra í sveitinni.

Hljómsveit Illuga starfaði líklega fram á haustið 2001 en hætti þá störfum.