Hljómsveit José Riba (1951-52 / 1955-64)

Hljómsveit José Riba

Spánverjinn José Riba (Ólafur Jósef Pétursson) starfrækti hljómsveitir á sjötta áratugnum en hann fluttist búferlum til Íslands árið 1950 eftir að hafa komið hér fyrst á fjórða áratugnum og gifst þá íslenskri konu.

José Riba bjó og starfaði á Akureyri fyrstu tvö árin (1950-52) og starfrækti þá hljómsveit sem lék reglulega á Hótel KEA, engar upplýsingar er hins vegar að finna um meðlimi og hljóðfæraskipan hljómsveitar hans – sjálfur var Riba fiðluleikari í grunninn en lék líklega mestmegnis á saxófón og klarinett með hljómsveitum sínum.

Riba fluttist suður til Reykjavíkur árið 1952 og starfaði þar með fjölmörgum hljómsveitum en haustið 1955 setti hann saman hljómsveit í eigin nafni til að leika í nýopnuðum skemmtistað í Austarbæjarbíói sem hlotið hafði nafnið Silfurtunglið en sú sveit átti eftir að starfa þar til vorsins 1959 og leika þar mestmegnis latin tónlist, einkum spænska.

Upphaflegir meðlimir Hljómsveitar José Riba í Silfurtunglinu voru auk Riba, þeir Einar G. Jónsson trommuleikari, Jóhann Gunnar Halldórsson harmonikkuleikari og Sigurður Guðmundsson píanóleikari og Árni Ísleifsson tók fljótlega við af Sigurði. Sveitin var líkast til nokkuð lengi skipuð sömu meðlimunum en árið 1958 höfðu orðið nokkrar breytingar á skipan hennar, Riba og Árni píanóleikari voru þá einir eftir af upprunalega bandinu en aðrir meðlimir voru Guðmundur R. Einarsson trommuleikari og Guðni S. Guðnason harmonikkuleikari.

Hljómsveit José Riba 1955

Fjölmargir söngvarar komu við sögu sveitarinnar enda voru þeir iðulega lausráðnir á þessum tíma, Jóhanna Óskarsdóttir söng með sveitinni í upphafi í Silfurtunglinu en meðal annarra söngvara má nefna Sigurð Johnny, Guðjón Matthíasson, Margréti Ólafsdóttur, Óla Ágústsson, Ingibjörgu Þorbergs og Hauk Morthens en sá síðast taldi söng með sveitinni í útvarpsþætti. Nokkrir af framangreindum söngvurum voru að stíga sín fyrstu skref sem dægurlagasöngvarar en sveitin lék m.a. á mikilli rokkhátíð í Silfurtunglinu árið 1957 þar sem ungir og upprennandi söngvarar fengu að spreyta sig – sumir þeirra sungu svo með sveitinni á dansleikjum í kjölfarið. Helena Eyjólfsdóttir var meðal þeirra, söng með sveitinni um tveggja mánaða skeið en Jose Riba mun hafa verið sá sem kenndi henni að nota hristur og önnur ásláttarhljóðfæri en eitt slíkt – Helenustokkurinn er einmitt kenndur við söngkonuna.

Hljómsveit José Riba 1959

Þó að Riba og félagar hafi verið húshljómsveit í Silfurtunglinu lék sveitin einnig stundum á stöðum eins og Breiðfirðingabúð og Þórscafe auk þess sem hún fór út á landsbyggðina á sumrin, t.d. austur á Selfoss og til Vestmannaeyja. Þá lék hún á stórum tónleikum sem haldnir voru í Austurbæjarbíói árið 1958 þar sem tíu hljómsveitir komu fram. Þessi sveit starfaði allt til vorsins 1959 í Silfurtunglinu en lék eitthvað í Framsóknarhúsinu þá um sumarið þar sem Sigrún Jónsdóttir söng með þeim.

Haustið 1960 var José Riba kominn með nýja sveit sem lék í Tjarnarcafe um tíma, sú sveit var skipuð Guðjóni Pálssyni píanóleikara, Reyni Sigurðssyni víbrafón-, bassa- og harmonikkuleikara og Sverri Garðarssyni trommuleikara auk hljómsveitarstjórans en þessi sveit virðist hafa leikið einnig eitthvað úti á landsbyggðinni s.s. í Vestmannaeyjum.

Svo virðist sem Riba hafi dvalist að einhverju leyti norðan heiða á árunum 1961 til 1963 en þá starfrækti hann hljómsveit sem lék á Hótel KEA á Akureyri – að minnsta kosti yfir sumartímann, ekki liggja fyrir neinar upplýsingar um meðlimi þessarar sveitar utan þess að heimamaðurinn Haukur Heiðar Ingólfsson píanóleikari starfaði með sveitinni og hugsanlega einnig harmonikkuleikarinn Ingvi Rafn Jóhannsson. Hljómsveit hans lék svo í Gúttó (Góðtemplarahúsinu) við Tjörnina yfir vetrartímann og allt fram á haustið 1964 en þá hætti hún störfum, engar upplýsingar er að finna um meðlima- og hljóðfæraskipan þeirrar sveitar en Valgerður Bára Guðmundsdóttir söng að minnsta kosti um tíma með sveitinni þar.