Hljómsveit Jóns Sigurðssonar [3] (1978-92)

Hljómsveit Jóns Sigurðssonar 1984

Hljómsveit Jóns Sigurðssonar bankamanns lék fyrir gömlu dönsunum víðs vegar um höfuðborgarsvæðið frá því undir lok áttunda áratugar síðustu aldar og fram á þann tíunda en dansleikir sveitarinnar voru kjörinn félagslegur vettvangur fyrir þá sem komnir voru af allra léttasta skeiðinu.

Jón Sigurðsson sem hér er um rætt var yfirleitt kallaður Jón í bankanum eða Jón bankamaður en á þessum tíma voru tveir til þrír aðrir alnafnar hans starfandi í tónlistinni en þeir gengu undir nöfnunum Jón bassaleikari, Jón trompetleikari og Jón horn – sá síðast taldi var reyndar nokkuð eldri en hinir. Jón bankamaður var bæði kunnur textasmiður og hljóðfæraleikari en aðal hljóðfæri hans var harmonikka og einnig hafði hann fengist við að syngja með hljómsveitum á yngri árum.

Hljómsveit Jóns tók til starfa vorið 1978 og lék þá í Þórscafe um sumarið, upplýsingar um hljómsveitarmeðlimi eru mjög af skornum skammti fyrstu árin en þeim mun meiri um söngvarana enda voru það þeir sem voru nafngreindir í blaðaauglýsingum þess tíma. Mattý Jóhanns (Matthildur Jóhannsdóttir) var söngkona sveitarinnar í upphafi en einnig komu við sögu hennar Grétar Guðmundsson (sem gæti einnig hafa leikið á trommur), Kristbjörg Löve, Guðlaug Hestnes og svo Hjördís Geirsdóttir um tíma en sú síðast nefnda átti eftir koma aftur síðar.

Kristbjörg söng með hljómsveit Jóns fram undir miðjan níunda áratuginn og á þeim tíma starfaði sveitin víða um borgina og lék gömlu dansana, s.s. í Ingólfscafe og Hótel Borg en svo varð aðal vígi hennar Hreyfilshúsið við Grensásveg þar sem dansað var fullum krafti. Um það leyti var trommuleikari sveitarinnar Guðmundur Garðar Hafliðason og hafði þá verið um nokkurra ára skeið og einnig hafði þá Hilmar Arnar Hilmarsson gítarleikari leikið með sveitinni á einhverju tímaskeiði en ekki liggja fyrir upplýsingar um aðra meðlimi hennar.

Eins konar gömludansa-vakning var um þetta leyti og sveitin naut því töluverðra vinsælda, danslagakeppnir voru endurvaktar á Hótel Borg og lék sveitin lögin þar undir söng þekktra söngvara og árið 1988 kom m.a.s. út plata með sveitinni með tónlist úr slíkri keppni undir titlinum Danslagakeppnin Hótel Borg. Fleiri söngvarar komu við sögu hennar, Hjördís Geirs kom aftur til sögunnar sem og Arna Þorsteinsdóttir, Anna Jóna Snorradóttir, Jón Kr. Ólafsson, Pálína Vagnsdóttir og Trausti Jónsson (sonur Jóns) sem einnig lék á trommur, sumir söngvaranna komu þó fram aðeins í fáein skipti með hljómsveitinni sem gestasöngvarar en Hjördís varð nú aðal söngkona sveitarinnar.

Enn eru upplýsingar um sveitarmeðlimi takmarkaðar á síðari hluta níunda áratugarins, áður er Trausti Jónsson nefndur og líklega var Sigurður Alfonsson harmonikkuleikari með henni í kringum danslagakeppnirnar en sveitin mun að jafnaði hafa verið kvartett plús söngvari, þó eru dæmi um að sveitin hafi starfað sem tríó. Í kringum 1990 var sveitin mestmegnis á Borginni, Hreyfilshúsinu og Danshúsinu í Glæsibæ en lék einnig á samkomum átthagafélaga, árshátíðum og slíkum samkomum.

Veturinn 1989-90 var sett á svið á Broadway tónlistardagskráin Komdu í kvöld við miklar vinsældir en hún var byggð á lögum og textum Jóns, hljómsveit hans kom þar nokkuð við sögu og lék á dansleikjum að skemmtun lokinni, söngvarar eins og Hjördís Geirsdóttir, Þorvaldur Halldórsson, Elly Vilhjálms, Björgvin Halldórsson og Trausti Jónsson önnuðust sönginn þar. Sveitin lék áfram eftir að sýningum hætti í Ásbyrgi á Hótel Íslandi en lék einnig áfram á stöðum eins og Templarahöllinni, Danshúsinu Glæsibæ, Ártúni og víðar.

Jón átti orðið við heilsubrest að stríða árið 1991 og leysti Sigurgeir Björgvinsson harmonikku- og hljómborðsleikari hann af um tima en aðrir meðlimir sveitarinnar voru þá Ragnar Páll Einarsson gítarleikari, Gunnar Pálsson bassaleikari og Trausti trommuleikari sonur Jóns en Hjördís hafði þá sungið með sveitinni um tíma. Einnig kom Örvar Kristjánsson harmonikkuleikari eitthvað fram með sveitinni einnig en þegar Jón lést snemma árs 1992 starfaði hún áfram í hans nafni fram á vorið – nafni sveitarinnar var þá breytt í Hljómsveit Hjördísar Geirs og starfaði í mörg ár eftir það í hennar nafni.

Efni á plötum